Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. júlí 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Veruleg hækkun á endurgreiðslu kostnaðar vegna tannlækninga

Bætt tannheilsa
Hjá tannlækni

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að hækka gjaldskrá vegna almennra tannlækninga barna yngri en 18 ára tímabundið um 50%. Gjaldskrárbreytingin gildir frá 1. júlí til næstu áramóta. Áætlað er að með þessu hækki hlutfall endurgreiðslu raunkostnaðar úr tæpum 42% í að meðaltali í 62,5% og hefur það ekki verið hærra í tæpan áratug.1) Ákvörðun velferðarráðherra er í samræmi við tillögu starfshóps sem hann skipaði um miðjan maí síðastliðinn.

Síðastliðinn áratug hefur á hverju ári orðið afgangur af þeim fjármunum sem Alþingi hefur ákveðið að verja til tannlækninga sjúkratryggðra hér á landi. Meginástæðan er sú að enginn samningur hefur verið í gildi milli ríkisins og tannlækna um margra ára skeið og hlutfall endurgreiðslu raunkostnaðar vegna tannlækninga barna hefur lækkað verulega. Í fyrra var sá afgangur sem varð af fjárlagalið tannlækninga nýttur í sérstakt átaksverkefni þar sem börnum tekjulágra foreldra var boðin tannlæknisþjónusta án endurgjalds og nýttu tæplega 800 börn þessa þjónustu.

Áætlað hefur verið að afgangur af fjárlagalið tannlækninga á þessu ári myndi að óbreyttu nema um 174 milljónum króna. Með gjaldskrárhækkuninni frá 1. júlí til 31. desember 2012 munu þessir fjármunir nýtast að fullu. Meginmarkmiðið er að fleiri börn leiti til tannlæknis en ella og er áætlað að þeim fjölgi um að minnsta kosti 10% með þessari breytingu.

Unnið að framtíðarlausn

Í starfshópi velferðarráðherra sem lagði til þessa breytingu um tímabundna hækkun gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands sátu fulltrúar velferðarráðuneytisins, Sjúkratrygginga Íslands, Tannlæknafélags Íslands, Háskóla Íslands, Embættis landlæknis og heilsugæslunnar og var hópurinn einhuga um tillöguna. Velferðarráðherra hefur veitt starfshópnum umboð til að vinna að tillögum um framtíðarfyrirkomulag tannlækninga barna. Stefnt er að því að ná samningum við tannlækna og að nýtt fyrirkomulag taki gildi í áföngum með bættri þjónustu við börn og barnafjölskyldur.

Enn er í gildi samningur við tannlækna um gjaldfrjálsa forvarnarskoðun 3ja, 6 og 12 ára barna. Listi yfir þá tannlækna sem vinna eftir samningnum má sjá hér.

1) Hlutfallsleg endurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands vegna tannlækninga miðast við gjaldskrá stofnunarinnar. Í reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga er kveðið á um 75% greiðsluþátttöku vegna tannlækninga barna og er þá miðað við hina opinberu gjaldskrá. Ef gjaldskrá tannlæknis er hærri en opinbera gjaldskráin greiðir sjúklingurinn mismuninn sem skýrir að endurgreiðsla raunkostnaðar hefur verið mun lægri en nemur 75% frá því að samningar hins opinbera við tannlækna féllu úr gildi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira