Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. september 2012 Dómsmálaráðuneytið

Dómnefnd metur tvo umsækjendur hæfasta

Dómnefnd sem fjallað hefur um umsækjendur um tvö embætti hæstaréttardómara og auglýst voru laus til umsóknar 5. júlí 2012 hefur skilað samdóma niðurstöðum. Niðurstaða dómnefndar er sú að Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson séu hæfastir til að hljóta embætti hæstaréttardómara. Sjö sóttu um embættin og einn dró umsókn sína til baka.

Umsækjendur voru: Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari, Ása Ólafsdóttir lektor, Benedikt Bogason dómstjóri og settur hæstaréttardómari, Helgi I. Jónsson dómstjóri, Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður og Ingveldur Þ. Einarsdóttir héraðsdómari. Aðalheiður Jóhannsdóttir dró umsókn sína til baka 20. ágúst.

Í 2. mgr. 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla, segir að dómnefnd skuli láta innanríkisráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti hæstaréttardómara. Samkvæmt ákvæðinu skal í umsögn dómnefndar tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið, en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna.

Í 3. mgr. 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla, kemur fram að óheimilt er að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 4. gr. Ráðherra skal þá leggja slíka tillögu fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum eða innan þess tíma frá því að Alþingi kemur næst saman eftir að umsögn er fengin og verður tillaga að vera samþykkt innan mánaðar frá því að hún er lögð fram, ella er ráðherra bundinn af umsögn dómnefndar.

Dómnefndina skipuðu Eiríkur Tómasson, Allan V. Magnússon, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Björk Bjarnadóttir og Skarphéðinn Þórisson.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira