Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. október 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að frumvarpi til breytinga á hafnalögum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum nr. 61/2003, með síðari breytingum. Unnt er að senda athugasemdir til ráðuneytisins til og með 28. október á netfangið [email protected].

Frumvarp þetta er afrakstur starfshóps um endurskoðun hafnalaga sem innanríkisráðherra skipaði 10. janúar 2011. Honum var falið að endurskoða hafnalögin í þeim tilgangi að styrkja rekstrargrundvöll hafna og gera þeim kleift að aðlagast breyttri notkun. Við endurskoðunina var höfð til hliðsjónar skýrsla nefndar um hvernig bregðast megi við fjárhagsvanda hafna frá 2009, skýrsla nefndar um mat á hagkvæmni strandflutninga á Íslandi, fyrirætlanir um eflingu sveitarstjórnarstigsins, samgönguáætlun og eftirlitshlutverk ríkisins með höfnum. Í starfshópnum sátu Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir og Gísli Gíslason, tilnefnd af Hafnasambandi Íslands, Sigurður Áss Grétarsson, tilnefndur af Siglingastofnun Íslands og Sigurður Örn Guðleifsson, fulltrúi innanríkisráðuneytisins sem jafnframt var formaður. Með starfshópnum starfaði Rúnar Guðjónsson.

Markmið frumvarpsins er að búa svo í haginn að hafnarsjóðir verði færir um að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu en svo því markmiði megi ná þarf að fjölga þeim hafnarsjóðum sem geta tekist á við eðlilegan rekstur og fjárfestingar. Með aukinni sérhæfingu, raunhæfara mati á arðsemi nýframkvæmda og forgangsröðun verkefna innan stærri heildar standa efni til þess að fleiri hafnir en nú geti ráðið við verkefni sín án stuðnings ríkissjóðs eða að minnsta kosti með minni stuðningi en nú er.

Helstu breytingar frumvarpsins eru:

1.   Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að nýju rekstrarformi verði bætt við lögin, þ.e. höfn í eigu íslenska ríkisins. Í dag er ríkið eigandi einnar hafnar en það er Landeyjahöfn, sbr. lög nr. 66/2008. Er eðlilegt að ákvæði hafnalaga sem mælir fyrir um rekstrarform hafna endurspegli þennan veruleika.

2.   Í 4. gr. er lagt til að eigendum hafna verði heimilað að gera samninga um samrekstur einstakra þátta í starfsemi hafna án þess að samvinnan þurfi að taka til hafnarstarfseminnar í heild sinni.

3.   Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði ákvæði um að hafnir skuli reka þannig að tekjur þeirra standi að minnsta kosti undir útgjöldum. Einnig er lagt til að 17. gr. sé skipt í tvo þætti, annars vegar ákvæði um hafnagjöld og hins vegar um önnur þjónustugjöld.

4.   Með 6. gr. frumvarpsins er lagt til að e-liður 2. mgr. 17. gr. gildandi hafnalaga verði að sérgrein. Telst aflagjaldið ekki lengur þjónustugjald fyrir veitta þjónustu heldur sér gjald sem taki mið af aflaverðmæti landaðs afla.

5.   Í 13. gr. er lagt til að 3. mgr. 23. gr. gildandi hafnalaga sé breytt á þann veg að fram komi í ákvæðinu hvaða atriði skulu lögð til grundvallar við tillögugerð og forgangsröðun framkvæmda. Lagt er til að litið sé til mikilvægis viðkomandi mannvirkis fyrir samgöngukerfi landsins og almannahagsmuni á viðkomandi stað.

6.   Með 14. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæðum laganna um ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir sé breytt í veigamiklum atriðum. Lagt er til að styrkhæfum framkvæmdum sé skipt í fimm flokka.

a)   Endurbygging og endurbætur á skjólgörðum og dýpkun þar sem reglulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf. Greiðsluþátttaka ríkisins skal vera allt að 75%.

b)   Endurnýjun á bryggju þar sem brýnt er að endurnýja viðkomandi bryggju og niðurrif hafnarmannvirkja sem þarf að fjarlægja vegna slysahættu. Greiðsluþátttaka ríkisins skal vera allt að 60%.

c)   Nýframkvæmd við bryggjugerð, skjólgarð og dýpkun í innsiglingu og innan hafnar. Stofnkostnaður við hafnsögubáta á stöðum þar sem aðstæður í höfn og nágrenni hennar kalla á slíkt öryggistæki og innsiglingamerki svo og löndunarkranar og hafnarvogir. Greiðsluþátttaka ríkisins skal vera allt að 50%.

d)   Aðgerðir eiganda hafnar sem miða að því að hætta eða draga úr hefðbundnum hafnarrekstri. Greiðsluþátttaka ríkisins getur numið allt að 60% af neikvæðu eigin fé hafnar.

e)   Aðgerðir hafnarsjóða vegna fyrirhugaðrar sameiningar í því skyni að tryggja almannahagsmuni á viðkomandi svæði með bættri afkomu, enda raski sameiningin ekki samkeppni milli hafna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira