Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. nóvember 2012 Innviðaráðuneytið

Skýrsla um rekstrar- og skattaumhverfi húsnæðisfélaga

Velferðarráðherra ásamt nefndarmönnum
Velferðarráðherra ásamt nefndarmönnum

Vinnuhópur sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fól að skoða rekstrar- og skattaumhverfi félaga og einstaklinga sem leigja út íbúðarhúsnæði hefur skilað ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum til úrbóta. Störf hópsins eru hluti vinnu við að útfæra tillögur um opinbera húsnæðisstefnu. 

Í apríl 2011 voru kynntar niðurstöður samráðshóps velferðarráðherra um húsnæðisstefnu stjórnvalda sem í meginatriðum felast í upptöku húsnæðisbóta, að hið opinbera stuðli að auknu framboði af leigu- og búseturéttaríbúðum og að öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál verði efld.

Í skýrslu vinnuhópsins er annars vegar fjallað um endurskoðun rekstrar- og skattaumhverfis húsnæðisfélaga og fjallað um stöðu leigumarkaðarins eins og hann er núna og þróun hans eftir efnahagshrunið 2008. Hins vegar er fjallað um helstu þætti í rekstrar- og skattaumhverfi húsnæðisfélaga sem leigja út húsnæði og er byggt á upplýsingum frá stærstu rekstraraðilum á leigumarkaði og öðrum þeim sem koma að útleigu íbúða og úthlutun búseturéttar.

Vinnuhópurinn telur rekstrarumhverfi húsnæðisfélaga að mörgu leyti óhagstætt og ráði þar mestu hár fjármagnskostnaður og breytileg verðbólga. Þótt vinnuhópurinn geri ekki beinar tillögur til úrbóta hvað þetta varðar leggur hann til ýmsar aðgerðir sem ætlað er að ýta undir aukið framboð leigu- og búseturéttaríbúða, líkt og ráðgert er samkvæmt húsnæðisstefnu stjórnvalda.

Helstu tillögur vinnuhópsins um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi húsnæðisfélaga eru þessar:

  • Skoðað verði að hækka fastan frádrátt einstaklinga af tekjum af útleigu íbúðar-húsnæðis eða að tekið verði upp ákveðið frítekjumark á húsaleigutekjum.
  • Áfram verði veitt full endurgreiðsla virðisaukaskatts af byggingu, viðhaldi og endurbótum á íbúðarhúsnæði.
  • Ríki og sveitarfélög skoði að lækka stofnkostnað fasteigna, til að mynda með því að leggja til lóðir, fella niður gatnagerðargjöld og að skuldabréf útgefin af húsnæðisfélögum verði stimpilgjaldfrjáls.
  • Náið verði fylgst með kostnaðaráhrifum vegna nýrrar byggingarreglugerðar. Skoða mætti aukið svigrúm fyrir aðila sem leigja út íbúðarhúsnæði.
  • Viðhald leigueigna verði í mun ríkari mæli gert að sameiginlegu hagsmunamáli leigusala og leigutaka.
  • Stuðningur verði jafnaður milli ólíkra búsetuforma, þó þannig að jöfnun stuðnings felist í því að styrkja þá hópa sem sérstaklega þurfa á stuðningi að halda.
  • Úrræði leigusala til að losna við óskilvísa leigjendur eða leigjendur sem uppvísir verða að óforsvaranlegri umgengni um leiguhúsnæði verða bætt.

Upplýsingar um skipan vinnuhópsins

Skýrslur vinnuhópa um útfærslur á tillögum samráðshóps um húsnæðisstefnu stjórnvalda:

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira