Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. desember 2012 Innviðaráðuneytið

Húsaleigubætur hækkaðar og dregið úr skerðingu vegna tekna

Húsin í bænum
Húsin í bænum

Grunnfjárhæð húsaleigubóta hækkar á næsta ári og verulega verður dregið úr skerðingaráhrifum tekna á bætur leigjenda. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra þessa efnis á fundi í gær. Breytingarnar eru liður í innleiðingu nýs húsnæðisbótakerfis og er markmiðið einkum að húsaleigubætur nái til fleiri heimila en verið hefur.

Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs vegna breytinganna aukist um tæpan milljarð á næsta ári, annars vegar vegna hækkunar bótanna og hins vegar vegna þess að með breytingunni fjölgar þeim sem rétt eiga til húsaleigubóta frá því sem verið hefur.

Í maí síðastliðnum skilaði vinnuhópur á vegum velferðarráðherra tillögum um nýtt og gjörbreytt húsnæðisbótakerfi sem myndi tryggja öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera, óháð búsetuformi og kæmi í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Í kjölfarið var settur á fót samráðshópur ríkis og sveitarfélaga til að vinna nánar að útfærslu og innleiðingu nýs húsnæðisbótakerfis og byggjast breytingarnar sem ríkisstjórnin samþykkti í gær á vinnu þessara hópa.

Miðað er við að innleiðing nýs húsnæðisbótakerfis fari fram í áföngum sem til að byrja með felst í því að minnka muninn á milli vaxtabóta og húsaleigubóta og bæta þannig stöðu leigjenda.

Breytingar árið 2013

  • Hækkun tekjuskerðingarmarka 1. janúar 2013. Húsaleigubætur byrja að óbreyttu að skerðast þegar árstekjur fara yfir 2,25 milljónir króna en með breytingunni hækka mörkin í 2,55 milljónir króna.
  • Skerðing húsaleigubóta vegna tekna lækkar úr 12% í 8% á ársgundvelli frá 1. janúar 2013.  Að óbreyttu skerðast húsaleigubætur í hverjum mánuði um 1% af árstekjum umfram 2,25 milljónir króna. Eftir breytinguna munu bæturnar skerðast um 0,67% af árstekjum umfram 2,55 milljónir króna.
  • Grunnupphæð húsaleigubóta hækkuð í áföngum. Þann 1. janúar næstkomandi hækkar grunnupphæð húsaleigubóta um 1.700 krónur á mánuði og aftur þann 1. júlí um 2.300 krónur.

Velferðarráðherra mun fyrir áramót setja reglugerð til breytinga á reglugerð um húsaleigubætur nr. 118/2003 sem kveður á um umræddar breytingar sem taka gildi á næsta ári.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum