Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. janúar 2013 Innviðaráðuneytið

Lagabreytingartillögur vegna siglingaverndar og flugverndar til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til breytinga á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004 og lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Umsagnarfrestur um drögin er til 11. febrúar næstkomandi og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].

Frumvarpið er lagt fram ekki síst fyrir tilstuðlan siglingaverndarráðs sem hefur lagt fram tillögur um að lög og reglugerðir hvað varðar viðurlög vegna brota á siglingavernd verði endurskoðuð. Að mati siglingaverndarráðs er nauðsynlegt að setja í lögin skýr ákvæði um viðurlög við brotum á siglingavernd.

Skýrari efnisákvæði

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að kveða skýrt á um að einstaklingum sé óheimilt að fara inn á haftasvæði flugverndar og viðkvæm hafnarsvæði sem hafa verið afmörkuð og merkt sem bannsvæði eða aflokuð svæði. Jafnframt sé einstaklingum óheimilt að fara um borð í skip eða loftfar án þar til bærrar heimildar. Í gildandi lögum er ekki að finna nein ákvæði sem kveða skýrt á um slíkt bann eða að gerist menn sekir um að fara inn á slík svæði eða um borð í slík farartæki án heimildar þá varði það refsingu. Talið er mikilvægt að tekið sé á þessu í löggjöf með afdráttarlausum hætti eins og gert er í frumvarpinu.

Fyrst og fremst er um að ræða breytingar sem eru til komnar vegna endurtekinna tilrauna einstaklinga til að brjótast inn á afmörkuð hafnarsvæði og haftasvæði flugverndar með það að markmiði að gerast laumufarþegar. Það skal tekið fram að í frumvarpinu er ekki eingöngu lagt út frá því að unnt sé að refsa þeim einstaklingum sem gerast sekir um innbrot á hafnarsvæði eða flugvallarsvæði sem gera það í þeim tilgangi að gerast laumufarþegar. Miðað er við að ákvæðin nái til þeirra einstaklinga sem gerast sekir um slíkt athæfi óháð því hvert markmiðið er. Það er því ljóst að hvers konar ólögmætt athæfi sem einstaklingur hefur í hyggju að framkvæma á þeim svæðum sem hér um ræðir fellur undir ákvæðin. Gengið er út frá því að innbrot á svæðið sem slíkt sé ólögmætt óháð því hver tilgangurinn með brotinu er. 

Samræmdar refsingar

Jafnframt eru í frumvarpinu samræmdar refsingar fyrir brot gegn lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir hvað þetta atriði varðar. Rétt er að vekja athygli á því að hámarksrefsing samkvæmt gildandi lögum um loftferðir er fimm ára fangelsisvist en tveggja ára fangelsisvist gerist menn sekir um brot á lögum um siglingavernd. Lagt er til í frumvarpinu að refsingar fyrir þau brot sem hér um ræðir verði samræmdar þannig að sama refsing hljótist fyrir samskonar brot óháð því hvort þau beinast að siglingavernd eða flugvernd. Frumvarpið mælir því fyrir um að hámarksrefsing fyrir siglingaverndarbrot af því tagi sem hér um ræðir verði hækkuð úr tveggja ára fangeldsisvist í fimm ár. Refsingar fyrir sambærileg brot á reglum um flugvernd og siglingavernd verða því samræmdar, verði frumvarpið að lögum, þ.e. sekt eða fimm ára fangelsi. 

Farmverndarreglur

Einnig er lögð til breyting á lögunum vegna vandkvæða tollstjórans í Reykjavík á að fylgja eftir reglum um farmvernd en talin er þörf á styrkari lagastoð fyrir refsiákvæði í reglunum í lögum um siglingavernd. 

Vonast er til þess að frumvarpið hafi þau áhrif að tilraunum til innbrota á umrædd svæði fækki eða jafnvel linni alfarið. Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar komi til með að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð eða sveitarfélög.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum