Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. ágúst 2013 Forsætisráðuneytið

Ráðherra heimsótti Jafnréttisstofu

Frá heimsókn ráðherra á Jafnréttisstofu
Frá heimsókn ráðherra á Jafnréttisstofu

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti sér starfsemi Jafnréttisstofu á Akureyri í gær og ræddi við starfsfólk um áherslur í jafnréttismálum og helstu verkefni stofnunarinnar. Ísland hefur í fjögur ár verið í efsta sæti af 135 þjóðum í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins. Von er á niðurstöðum nýrrar úttektar í haust. 

Jafnréttisstofa tók til starfa á Akureyri í september árið 2000. Hún annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á Íslandi í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðherra. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir verkefnin fjölbreytt og víðfeðm og stofnuninni fátt óviðkomandi á sviði jafnréttismála. Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, miðlar upplýsingum um jafnrétti kynjanna og annast fræðslu og ráðgjöf til einstaklinga, félaga, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda á öllum stigum. Jafnréttisstofa fylgist einnig með þróun jafnréttismála í þjóðfélaginu, meðal annars með upplýsingaöflun og rannsóknum.

Eygló Harðardóttir og Kristín ÁstgeirsdóttirStarfsmenn Jafnréttisstofu eru átta. Framlög til stofnunarinnar á fjárlögum þessa árs námu tæpum 75 milljónum króna en hún aflar jafnframt sértekna sem á þessu ári nema um 20 milljónum króna og felast einkum í styrkjum sem stofnunin sækir í tengslum við erlent samstarf.

Meðal stórra verkefna sem Jafnréttisstofa sinnir er að hafa eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir setji  sér jafnréttisáætlun líkt og skylt er samkvæmt lögum ef starfsmenn eru 25 eða fleiri. Ingibjörg Elíasdóttir lögfræðingur kynnti framgang þessarar vinnu á fundinum með ráðherra. Fram kom að nokkur misbrestur er á því að lagaákvæðinu sé fylgt, oft vanti mikið upp á að jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana uppfylli sett skilyrði og hafi skýr markmið. Því felist mikil vinna í því að yfirfara áætlanirnar og veita aðhald, aðstoð og ráðgjöf til að koma þeim í rétt horf. Undanfarið hefur Jafnréttisstofa yfirfarið jafnréttisáætlanir opinberra stofnana. Af 81 stofnun sem fellur undir ákvæði jafnréttislaga um jafnréttisáætlanir voru aðeins 25 með áætlanir sem uppfylltu lágmarkskröfur laganna. Flestar hinna stofnananna vinna nú að gerð jafnréttisáætlana eða eru að lagfæra áætlanir sínar í samræmi við athugasemdir Jafnréttisstofu.

Í alþjóðlegum samanburði á sviði jafnréttismála stendur Ísland vel þegar mat er lagt á aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðgengi að menntun og þátttöku í stjórnmálum. Í vinnumarkaðsmálum þegar horft er til launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga þarf hins vegar margt að bæta. Virkar jafnréttisáætlanir stofnana og fyrirtækja eru mikilvægur liður í úrbótum á þessu sviði, enda skal þar sérstaklega fjallað um launajafnrétti, ráðningar, starfsþjálfun, endur- og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og aðgerðir til að koma í veg fyrir kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á vinnustað.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira