Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. september 2013 Innviðaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um flugvernd, siglingavernd og vopnalög til umsagnar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um flugvernd, siglingavernd og vopnalögum er nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Umsagnarfrestur er til og með 17. september næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].

Frumvarpsdrögin hafa áður verið til umsagnar hjá ráðuneytinu. Umsagnir bárust frá átta aðilum og voru almennt mjög jákvæðar í garð frumvarpsins. Í ljósi þess að gerðar hafa verið talsverðar breytingar á frumvarpinu, að teknu tilliti til athugasemda sem borist hafa, er frumvarpið nú sett í umsögn á nýjan leik en með stuttan umsagnarfrest.

Í drögunum eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lögum um siglingavernd annars vegar og lögum um loftferðir hins vegar. Jafnframt eru lagðar til smávægilegar breytingar á vopnalögum. 

Fyrst og fremst er um að ræða breytingar sem eru til komnar vegna endurtekinna tilrauna einstaklinga til að brjótast inn á afmörkuð hafnarsvæði og haftasvæði flugverndar með það að markmiði að gerast laumufarþegar. Þeir einstaklingar sem hér um ræðir hafa í mörgum tilvikum verið handteknir af lögreglu, færðir til yfirheyrslu en sleppt að henni lokinni til þess eins að gera aðra tilraun til að komast inn á lokað hafnar- eða flugvallarsvæði. Þá hafa þeir í sumum tilvikum verið kærðir en svo virðist sem þeir fremji engu að síður endurtekin innbrot á svæðin. Er með frumvarpinu lagt til að kveðið verði skýrt á um það að óheimilt sé að fara inn á slík svæði, um borð í loftfar eða skip nema með tilskildum heimildum að viðlagðri refsingu, geri menn slíkt án heimildar.

Breytingarnar á vopnalögum fela fyrst og fremst í sér heimild til handa flugrekendum að eiga viðunandi búnað til að geta brugðist við því þegar ólátafarþegar fara mikinn um borð í loftförum og áhafnir flugvéla þurfa að geta brugðist við ósæmilegri hegðun með öruggum og fumlausum hætti. Flugrekendum er því veitt heimild til að geta átt um borð í loftförum sínum hand- og fótajárn til að geta brugðist við slíkum aðstæðum sem geta valdið verulegri ógn við flugvernd og flugöryggi ef ekkert er að gert.   

Þá er lagt til með frumvarpinu að Samgöngustofu verði færð heimild til að leggja á stjórnvaldssektir eða dagsektir fyrir aðgangsbrot eða seinagang í að skila upplýsingum til eftirlitsaðila o.s.frv. Er þessi breyting m.a. lögð til svo koma megi til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Eftirlitsstofnunin hefur verið á þeirri skoðun að úrræði skorti til handa Samgöngustofu til að beita viðunandi úrræðum við eftirlitshlutverk sitt og er breytingin sett fram m.a. til að koma til móts við þær ábendingar.

Einnig er lögð til breyting á lögum um siglingavernd vegna vandkvæða tollstjóra við að fylgja eftir reglum um farmvernd, en talin er þörf á styrkari stoð í lögum um siglingavernd fyrir refsiákvæði í reglunum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum