Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. október 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Framlög til heilbrigðismála aukast um 5,5 milljarða króna

Hlustunarpípa
Hlustunarpípa

Framlög til heilbrigðismála aukast um tæpa 5,5 milljarða króna milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist binda vonir við að sameining heilbrigðisstofnana muni styrkja þær og efla þjónustu á landsbyggðinni og að innleiðing þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu muni leiða til betri nýtingar fjármuna í þágu sjúklinga.

Fjárframlög til heilbrigðismála samkvæmt fjárlögum þessa árs námu rúmum 127 milljörðum króna en verða á næsta ári tæpir 133 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og nemur aukningin 4,3%.

Breytingar á útgjöldum eru meðal annars eftirfarandi:

  • Fjárveiting til öldrunarmála hækkar um 835 milljónir króna að raungildi. Þar af er 350 milljóna króna framlag til reksturs 40 hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum.
  • 400 milljónir króna sem áður runnu úr Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstur hjúkrunarrýma fara nú óskiptar inn í sjóðinn og nýtast til uppbyggingar hjúkrunarstofnana.
  • Varið verður 100 milljónum króna árið 2014 vegna hönnunar sjúkrahótels á lóð Landspítala en stefnt er að því að fullnaðarhönnun ljúki árið 2015 og að þá verði hægt að hefja framkvæmdir.
  • Framlag til kaupa á S-merktum lyfjum hækkar um 670 milljónir króna til að mæta auknum útgjöldum á þessu ári og vegna fyrirsjáanlegrar aukningar árið 2014.
  • Varið verður 1.500 milljónum króna í auknar launagreiðslur á heilbrigðisstofnunum.
  • Um 350 milljónum króna verður varið í niðurgreiðslu tannlækninga barna á grundvelli samnings við tannlækna.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherraKristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist binda vonir við að ýmsar nýjungar og skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar eru muni skila góðum árangri þannig að hægt verði að bæta þjónustu en jafnframt hagræða í rekstri: „Undirbúningur er þegar hafinn að innleiðingu þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu. Verkefninu er ætlað að tryggja sjúklingum viðeigandi úrræði, auka skilvirkni og bæta nýtingu fjármuna auk þess sem það styður við eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Í sama skyni verður komið á fót símaráðgjöf í heilbrigðiskerfinu sem verður opin allan sólarhringinn og þjónar landinu öllu. Þá verður veitt fjármunum til að gera hreyfiseðla að virku meðferðarformi. Loks tel ég að sameining heilbrigðisstofnana sem ákveðin hefur verið muni skapa mun sterkari einingar með auknum möguleikum á samstarfi, samnýtingu og sameiginlegum innkaupum. Síðast en ekki síst eykur þetta getu stofnananna til að að tryggja örugga og stöðuga mönnun á starfsstöðvum sínum en mönnunin hefur einmitt verið mikið vandamál á liðnum árum.“

Á meðfylgjandi glærum má sjá hvernig útgjöld skiptast milli málaflokka og breytingu milli ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira