Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Fjölmenni á vinnudegi um mótun húsnæðisstefnu

Eygló Harðardóttir og Soffía Eydís Björgvinsdóttir
Eygló Harðardóttir og Soffía Eydís Björgvinsdóttir

Fundað er í öllum fundarsölum velferðarráðuneytisins á fjölmennum vinnudegi um mótun húsnæðisstefnu til framtíðar sem hófst um hádegisbil. Félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ávarp við upphaf vinnunnar og opnaði vefsvæði þar sem almenningi gefst kostur á að fylgjast með stefnumótunarvinnunni og senda inn ábendingar.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í samræmi við ályktun Alþingis um  aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna sem samþykkt var í sumar. Með áherslu á víðtækt samráð um verkefnið skipaði ráðherra jafnframt samvinnuhóp með fulltrúum fjölmargra hagsmunaaðila sem taka munu þátt í stefnumótunarvinnunni. Hluti af henni felst í því að kanna hvaða fyrirkomulag við fjármögnun almennra húsnæðislána er hagkvæmast og gera tillögur um hvernig megi hrinda því í framkvæmd. Jafnframt verður skoðað hvernig tryggja megi virkan leigumarkað hér á landi og einnig skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda. Í því sambandi verður skoðað hvernig stjórnvöld geta sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í því að veita þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Ráðherra ræðir við fundarmenn í upphafi vinnudags„Mótun húsnæðisstefnu til framtíðar er stórt verkefni sem ekki verður skipulagt eða unnið af fámennum hópi“ sagði Eygló Harðaradóttir þegar hún ávarpaði fundarmenn við upphaf vinnunnar í dag: Víðtækt samráð við mótun stefnunnar er algjör forsenda að mínu mati til að halda til haga ólíkum sjónarmiðum, tryggja samstöðu um leiðir og gera stefnuna framkvæmanlega.“

Soffía Eydís Björgvinsdóttir er formaður samvinnuhópsins og mun leiða vinnuna sem framundan er. Að loknu ávarpi ráðherra gerði hún grein fyrir skipulagi starfsins og að því búnu hófst vinnan þar sem skipað var í fjóra hópa um tiltekin verkefni sem fjalla munu um; 1) fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána, 2) uppbyggingu á virkum leigumarkaði, 3) skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum og 4) hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Áður en vinna hófst hvatti félags- og húsnæðismálaráðherra fundarmenn til þess að vera opna fyrir öllum hugmyndum, vera reiðubúna að skoða alla möguleika og útiloka ekkert að óathuguðu máli: „Við þurfum fleiri valkosti í húsnæðismálum. Við þurfum aukið öryggi þegar kemur að heimilum okkar, óháð búsetuformi. Við þurfum samstarf og samvinnu allra sem á einhvern hátt geta lagt þessum málum lið“ sagði ráðherra að lokum.

Þröng á þingi við upphaf vinnudags


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum