Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Sívaxandi útgjöld til heilbrigðismála krefjast nýrra lausna

Gestir á Fræðadögum hlýða á ávarp heilbrigðisráðherra
Gestir á Fræðadögum hlýða á ávarp heilbrigðisráðherra

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti ávarp á Fræðadögum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag. Hann gerði að umtalsefni stöðuga og mikla aukningu útgjalda til heilbrigðismála á Vesturlöndum samkvæmt spám OECD og óskaði eftir opinni umræðu um nýjar leiðir og lausnir til að takast á við vandann.

Ráðherra sagði ástæðu þess að hann óskað eftir þessari umræðu ekki fyrst og fremst vera þröngan fjárhag ríkissjóðs, heldur þá þróun sem væri fyrirsjáanleg í framtíðinni: „Spár OECD gera ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðisþjónustu muni margfaldast á næstu áratugum verði ekkert að gert. Þörf fyrir umræðu, nýja sýn og nýja nálgun er því alls ekki bundin við litla Ísland, heldur snýst um framtíð heilbrigðisþjónustu víða um lönd. Þarfir fjöldans fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins hafa breyst mikið á liðnum áratugum. Helstu heilsufarsógnir nútímans eru faraldur ósmitnæmra, langvinnra sjúkdóma sem margir hverjir teljast til svokallaðra lífsstílssjúkdóma. Það er ástæða til að ætla að breytingar á sjúkdómabyrðinni og aðrar lýðheilsuógnir en þær sem áður voru meginvandi heilbrigðiskerfisins kalli á endurskoðun, nýjar nálganir og nýjar lausnir.

Það sem við þurfum að skoða er hvort við getum mögulega veitt öðruvísi þjónustu, hagkvæmari og skilvirkari þjónustu sem skilar jafngóðum eða betri árangri þegar horft er til útkomunnar. Og þegar ég tala um útkomuna á ég við þegar við horfum á heilsufar þeirra sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda“ sagði ráðherra meðal annars. Hann benti einnig á að ýmsir þættir heilbrigðisþjónustu hér á landi væru framúrskarandi í alþjóðlegum samanburði þegar árangur meðferðar væri metinn. Því væri rík ástæða til þess að skoða hvað liggi að baki góðum árangri, leita skýringa og skoða hvort eitthvað mætti yfirfæra á aðra þætti þar sem árangur er ekki sem skyldi.

„Ég tel ekkert ofsagt þótt ég haldi því fram hér að við stöndum á tímamótum sem krefjast endurskoðunar á öllum þáttum heilbrigðiskerfisins. – Aukin áhersla á þætti sem geta bætt lýðheilsu er hluti af þessu. Þá er ég ekki fyrst og fremst að vísa til heilbrigðisþjónustunnar, heldur marga annarra þátta sem leitt geta til bættrar lýðheilsu. Breytingar sem verða á lífsstíl almennings geta verið afdrifaríkar, jafnt til góðs og ills. Því skiptir geysilega miklu máli að leggja rækt við forvarnir og fræðslu og ýta undir það að fólk taki sjálft sem mesta ábyrgð á eigin heilsu með því að temja sér heilbrigða lífshætti“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra meðal annars í ávarpi sínu á Fræðadögum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira