Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. nóvember 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Djúpsprengjum beitt til að fæla síld úr Kolgrafafirði

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur tekið yfir samhæfingu aðgerða vegna síldarinnar í Kolgrafafirði. Ákveðið hefur verið að ráðast í fælingaraðgerðir með djúpsprengjum í firðinum í því skyni að hrekja síldina út úr firðinum. Landhelgisgæslan mun sjá um verkið sem gert er ráð fyrir að fari fram á morgun, fimmtudaginn 28. nóvember.

Aðgerðirnar voru ræddar í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík í morgun á fundi með fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar, Landhelgisgæslunnar, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og sýslumanns Snæfellinga, Stykkishólmi. Þá voru aðgerðirnar kynntar og ræddar á fundi með heimamönnum í Kolgrafafirði nú síðdegis.

Smölun síldar með djúpsprengjum er þekkt aðferð sem áður var notuð með góðum árangri við nótaveiðar en er nú víðast hvar bönnuð sem veiðiaðferð. Eru því nokkrar vonir bundnar við að hægt sé að hrekja síldina út úr firðinum með þessum hætti.

Varðskipið Þór mun í dag leggja af stað áleiðis til Kolgrafafjarðar vegna aðgerðanna og bátar á vegum Landhelgisgæslunnar koma smásprengjunum fyrir í firðinum á morgun.

Vegna aðgerðanna verður Kolgrafafjörður lokaður á morgun fyrir bátaumferð og veiði og vegurinn innan fjarðar verður sömuleiðis lokaður almennri umferð. Eftir sem áður verður opið fyrir umferð um brúna sjálfa en ekki verður heimilt að stöðva ökutæki á brúnni.

Fylgst verður grannt með árangri aðgerðanna, magni síldar og súrefnisstöðu fjarðarins í því skyni að geta gripið til aðgerða á ný með skömmum fyrirvara ef þurfa þykir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira