Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð um lánveitingar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum

Vinnumál
Vinnumál

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til að fjármagna byggingu eða kaup á leiguíbúðum.

Reglugerðin hefur verið send Stjórnartíðindum og tekur gildi við birtingu. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 873/2001 sem gildir um lánveitingar til félagslegra leiguíbúða og einnig verður felldur úr gildi VIII. kafli reglugerðar nr. 57/2009 sem gildir um lánveitingar til almennra leiguíbúða.

Með nýju reglugerðinni sem ráðherra undirritaði í dag er kveðið á um hámarksstærðir og hámarksverð leiguíbúða og áskilið að Íbúðalánasjóður geti einungis veitt lán til húsnæðis sem fellur innan þeirra marka. Nýmæli er að sömu kröfur eru gerðar að þessu leyti til leiguíbúða, hvort sem þær eru ætlaðar til útleigu á almennum markaði eða í félagslegum tilgangi fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum. Sérstaklega er kveðið á um að ákvæði um hámarksstærðir og hámarksverð verði tekin til endurskoðunar fyrir 1. janúar 2014 með hliðsjón af hlutverki Íbúðalánasjóðs við að veita þjónustu í almannaþágu.

Árið 2012 voru gerðar breytingar á lögum um húsnæðismál, meðal annars vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA sem lýsti efasemdum um að lán Íbúðalánasjóðs til almennra leigufélaga samræmdust skilyrðum EES-samningsins fyrir veitingu ríkisaðstoðar. Með lagabreytingunni var komið til móts við þessar athugasemdir og í reglugerðinni er kveðið nánar á um skilyrði fyrir þessum lánveitingum. 

Með því að gera sömu kröfur að þessu leyti til leiguíbúða, án tillits til þess hvort þær séu ætlaðar til almennrar útleigu eða til útleigu til tiltekins hóps sem er undir tekju- og eignamörkum, er þannig leitast við að tryggja að útleiga á öllum íbúðum sem lánað er til samkvæmt reglugerðinni geti talist þjónusta í almannaþágu þannig að lánveitingar vegna þeirra samræmist ákvæði 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira