Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. desember 2013 Innviðaráðuneytið

Teymi fjögur: 5. fundur um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði

  • Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 5. fundur teymis 4.  Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 5. desember 2013, kl. 10-12.
  • Málsnúmer: VEL13060104.
  • Mætt: Bolli Þór Bollason (fundarstjóri, verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála), Daníel Hafsteinsson (Búmenn hsf.), Gestur Guðjónsson (þingflokkur Bjartrar framtíðar), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Jónína S. Lárusdóttir (Samtök fjármálafyrirtækja), Sigurbjörn Skarphéðinsson (Félag fasteignasala), Tryggvi Þórhallsson (Samband íslenskra sveitarfélaga) og ásamt Helgu Maríu Pétursdóttur (velferðarráðuneyti) og Lísu Margréti Sigurðardóttur (velferðarráðuneyti) sem rituðu fundargerð.
  • Forföll: Elín Hirst (þingflokkur Sjálfstæðisflokksins), Guðbjartur Hannesson (þingflokkur Samfylkingarinnar), Gylfi Arnbjörnsson (Alþýðusamband Íslands), Halldór Auðar Svansson (þingflokkur Pírata), Ólöf Birna Björnsdóttir (þingflokkur Framsóknarflokksins), Soffía Guðmundsdóttir (Íbúðalánasjóður), Vilhjálmur Bjarnason (Hagsmunasamtök heimilanna) og Þórný Kr. Sigmundsdóttir (Samtök leigjenda) voru fjarverandi.
  • Fundarritarar: Helga María Pétursdóttir og Lísa Margrét Sigurðardóttir.

D A G S K R Á

1. Fundargerðir funda 1.-4.

Fundargerðir funda 1. – 4. voru samþykktar án athugasemda.

2. Tímafrestir vegna verkefnisins.

Á síðasta fundi var ákveðið að teymið skyldi bíða eftir niðurstöðum greiningarvinnu á vegum KPMG ehf. og Analytica ehf. og skila tillögum sínum til samvinnuhópsins þegar það hefði fengið tækifæri til að kynna sér umræddar niðurstöður. Fundarstjóri gerði grein fyrir að nú lægju fyrir hugmyndir um nánari tímasetningar vegna verkefnisins. Lagt væri til að skiladegi teymisins yrði frestað til 10. janúar 2014, en gert væri ráð fyrir að greiningarvinnu KPMG ehf. og Analytica ehf. yrði lokið fyrir jól eða í síðasta lagi fyrir áramót. Þannig hefði teymið u.þ.b. tvær vikur til að ljúka störfum sínum eftir að greiningarvinnan lægi fyrir. Ekki væri gert ráð fyrir að teymið þyrfti að skila skýrslu með niðurstöðum sínum, heldur einungis stuttri greinargerð. Jafnframt var bent á að kæmist teymið ekki að samhljóða niðurstöðu væri hverjum og einum unnt að leggja fram sérálit sitt í formi bókunar við greinargerðina.

Þá var rætt um framhald vinnunnar á vegum teymisins. Lagt var til að á næstu fundum myndu fulltrúar í teyminu skiptast á skoðunum um sviðsmyndirnar fjórar en í því sambandi tók fundarstjóri jafnframt fram að á síðasta fundi hefðu komið fram sjónarmið um að skoða þyrfti fleiri sviðsmyndir en þær fjórar sem lagðar voru til grundvallar af verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála.

 3. Umræður innan teymisins um framtíðarhlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Fram komu sjónarmið um að við mótun tillagna um framtíðarhlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði verði að taka tillit til þess að landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið feli í sér ólíka húsnæðislánamarkaði. Í því sambandi var lögð áhersla á að dragi ríkið sig út af húsnæðislánamarkaði verði að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar á markaðnum. Enn fremur var lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja húsnæðisöryggi.

Þá komu fram sjónarmið um að taka mætti til skoðunar nýja sviðsmynd sem fæli í sér að starfsleyfi fjármálafyrirtækja yrði bundið alþjónustukvöð en í því sambandi komu meðal annars fram sjónarmið um að verði sú leið farin þurfi að tryggja að neytendur geti haft húsnæðislán sín á einum stað en viðskipti vegna annarrar bankaþjónustu annars staðar ef þeir svo kjósa. Í því sambandi þurfi jafnframt að tryggja að neytendur geti fært viðskipti sín á milli án mikilla vandkvæða og/eða kostnaðar, en afnám stimpilgjalda sé mikilvægur liður í því.

Jafnframt var rætt um kosti „dönsku leiðarinnar“. Mikil reynsla væri komin á það fyrirkomulag, starfsemi slíkra lánastofnana væri bundin við veitingu íbúðalána, þær væru án hagnaðarkvaðar o.fl. Fram komu sjónarmið um að mikilvægt væri að tryggja að veiting húsnæðislána yrði aðskilin frá annarri starfsemi.

Fram komu efasemdir um kosti þeirrar leiðar að sameina Íbúðalánasjóð og Landsbankann, meðal annars vegna þess hve háa markaðshlutdeild slík lánastofnun myndi hafa sem ólíklegt er talið að samræmist ákvæðum samkeppnislaga.

Þá var rætt um það lægi ljóst fyrir að samkvæmt ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) sé Íbúðalánasjóði óheimilt að vera í samkeppni á markaði á meðan hann nýtur ríkisábyrgðar og annarrar ríkisaðstoðar. Þannig séu í raun þrír möguleikar í stöðunni:

  • Að ríkið dragi sig alfarið út af húsnæðislánamarkaði.
  • Íbúðalánasjóður starfi áfram og njóti áfram ríkisaðstoðar en þá verður hann að láta af veitingu almennra húsnæðislána í samkeppni við aðrar lánastofnanir og beina starfsemi sinni eingöngu að veitingu þjónustu í almannaþágu á félagslega enda markaðarins til samræmis við undanþágureglu 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins, sem heimilar veitingu ríkisaðstoðar í formi bóta fyrir almannaþjónustu.
  • Íbúðalánasjóður starfi áfram á markaðnum án ríkisábyrgðar og annarrar ríkisaðstoðar.

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðislána taldi ekki ástæðu til að skoða síðastnefnda sviðsmynd nánar þar sem í henni felst rekstur ríkisbanka í samkeppni á markaði.

Varðandi fyrsta möguleikann, var bent á að fortíðarvandi Íbúðalánasjóðs hverfi ekki þótt sjóðurinn verði lagður niður heldur þurfi að leysa þann vanda með einhverjum hætti.

Varðandi annan möguleikann, þ.e. að Íbúðalánasjóður veiti eingöngu félagsleg lán, var bent á að íslensk stjórnvöld hafi í samskiptum sínum við Eftirlitsstofnun EFTA, skuldbundið sig til að gera ráðstafanir til að aðlaga starfsemi sjóðsins að undanþágureglu 59. gr. EES-samningsins og láta þannig af almennum lánveitingum í samkeppni við aðrar lánastofnanir en veita þess í stað eingöngu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Í því miði voru gerðar ýmsar breytingar á lánveitingum sjóðsins með breytingum á lögum um húsnæðismál árið 2012, Líkt og gert hefur verið grein fyrir á fyrri fundum teymisins. Á þeim tíma féllst Eftirlitsstofnun EFTA á að taka mætti tillit til þess að markaðsbrestur væri til staðar og því væri ekki einungis um afmarkaðan hóp að ræða sem hefði þörf á þjónustu Íbúðalánasjóðs, heldur væri nauðsynlegt að tryggja að sem flestir hefðu möguleika á að fá þar lán til íbúðakaupa. Í ljósi þess að ekki væri gert ráð fyrir að um viðvarandi markaðsbrest yrði að ræða þótti hins vegar nauðsynlegt að tryggja að þegar aðstæður á markaði myndu breytast yrði hlutdeild Íbúðalánasjóðs á markaði takmörkuð til að tryggja eðlilega samkeppni. Þannig gera lög um húsnæðismál nú ráð fyrir að heimilt sé að lána til húsnæðis að u.þ.b. 50 m.kr. miðað við fasteignamat en sú fjárhæð tekur til u.þ.b. 96% alls íbúðarhúsnæðis á Íslandi. Lögin kveða hins vegar á um að endurskoða skuli annað hvert ár hvort breyta þurfi hlutfalli hámarksfjárhæðar ÍLS-veðbréfa af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, þ.e. hámarksverðmæti húsnæðis sem sjóðnum er heimilt að lána til kaupa á, með tilliti til breytinga á lánamörkuðum, þróunar verðlags og þjóðhagsforsendna, til að takmarka hlutdeild sjóðsins á markaði. Ljóst er að hlutdeild Íbúðalánasjóðs af nýjum útlánum hefur lækkað verulega undanfarið.

Þá komu fram sjónarmið um að verði þessi leið fyrir valinu verði að tryggja að framtíðarfyrirkomulaginu verði ekki ætlað að greiða niður fortíðarvanda Íbúðalánasjóðs. Verði sú leið farin að Íbúðalánasjóður starfi áfram á markaði í smækkaðri mynd í formi félagslegrar lánastofnunar, líkt og Husbanken í Noregi, með t.d. 10% markaðshlutdeild, þá verði að aðskilja fortíðarvandann frá slíkri stofnun.

Þá komu fram sjónarmið um að slík þjónusta í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði eigi ekki að vera veitt í formi lánveitinga með niðurgreiddum vöxtum heldur væri eðlilegra að veita slíka þjónustu með öðrum hætti, svo sem í gegnum skattkerfið. Til að mynda mætti slíkur stuðningur vera í formi húsnæðisbóta sem leigjendur jafnt sem húsnæðiseigendur eigi rétt á í samræmi við tillögur vinnuhóps um húsnæðisbætur sem fram koma í skýrslu vinnuhópsins sem gefin var út í maí 2012. Þá væri ekki lengur þörf á lánastofnun á borð við Íbúðalánasjóð sem mikill rekstrarkostnaður fylgi. Í því sambandi var meðal annars bent á að óeðlilegt sé að ríkisfé sé varið til reksturs lánastofnunar í samkeppni við aðrar stofnanir á markaðnum þegar slíkum rekstri fylgir mikið fjártjón fyrir ríkið. Finna þurfi fyrirkomulag þar sem ekki sé verið að verja fjármunum ríkisins í veitingu á þjónustu sem markaðurinn geti vel séð um án aðkomu ríkisins.

Jafnframt var rætt um hlutverk ríkisins við að veita lögaðilum þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Bent var á að viðurkennt sé samkvæmt Evrópurétti að ríki megi veita lögaðilum þjónustu í almannaþágu, að nánari skilyrðum uppfylltum, og að niðurgreiddir vextir á lánum til leigufélaga séu e.t.v. ekki hentugasta leiðin til að styrkja slík félög. Í því sambandi var þó bent á að í „dönsku leiðinni“ njóti lögaðilar styrks í formi vaxtaniðurgreiðslu. Þá kom fram að greina þurfi á hvaða vettvangi þörf sé á stuðningi frá ríkinu á grundvelli hlutlægra ástæðna svo meta megi hvernig hlutverki stjórnvalda við veitingu á almannaþjónustu á húsnæðislánamarkaði verði best sinnt. Í tengslum við stuðning ríkisins við leigufélög var jafnframt bent á að í kjölfar strangari krafna nýrra laga um neytendalán til þess að lántakendur standist greiðslumat og lánshæfismat megi gera ráð fyrir að stærri hópur en áður muni leita á leigumarkaðinn. Þörf sé á miklu átaki við uppbyggingu leigumarkaðarins á Íslandi.

4. Næsti fundur.

Ákveðið var að næsti fundur skyldi haldinn í velferðarráðuneytinu að viku liðinni, þann 12. desember 2013, kl. 9:00-10:00.

5. Önnur mál.

Óskað var eftir upplýsingum um hvenær stæði til að veita teyminu aðgang að bréfum stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA vegna rannsóknar stofnunarinnar á fjármögnun sjóðsins. Upplýst var um að óskað hefði verið eftir heimild Eftirlitsstofnunar ESA til að birta bréfin og að verið væri að bíða eftir svörum við þeirri beiðni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira