Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. janúar 2014 Innviðaráðuneytið

Teymi fjögur: 6. fundur um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði

  • Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 6. fundur teymis 4.  Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 10. janúar 2014, kl. 14-16.
  • Málsnúmer: VEL13060104.
  • Mætt: Bolli Þór Bollason (fundarstjóri, verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála), Daníel Hafsteinsson (Búmenn), Elín Hirst (þingflokkur Sjálfstæðisflokksins), Gestur Guðjónsson (þingflokkur Bjartrar framtíðar),Guðbjartur Hannesson (þingflokkur Samfylkingarinnar), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Halldór Auðar Svansson (þingflokkur Pírata), Ólöf Birna Björnsdóttir (þingflokkur Framsóknarflokksins), Sigurbjörn Skarphéðinsson (Félag fasteignasala), Soffía Guðmundsdóttir (Íbúðalánasjóður), Tryggvi Þórhallsson (Samband íslenskra sveitarfélaga) og Vilhjálmur Bjarnason (Hagsmunasamtök heimilanna) ásamt Helgu Maríu Pétursdóttur (velferðarráðuneyti) og Lísu Margréti Sigurðardóttur (velferðarráðuneyti) sem rituðu fundargerð.
    Forföll:
    Gylfi Arnbjörnsson (Alþýðusamband Íslands), Jónína S. Lárusdóttir (Samtök fjármálafyrirtækja) og  Þórný Kr. Sigmundsdóttir (Samtök leigjenda) voru fjarverandi.
  • Fundarritarar: Helga María Pétursdóttir og Lísa Margrét Sigurðardóttir.

D A G S K R Á

1. Staða verkefnisins.

Fundarstjóri gerði grein fyrir stöðu verkefnisins. Fram kom að gert væri ráð fyrir að samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála tæki tillögur teyma 1 og 4 til umfjöllunar föstudaginn 24. janúar nk. og því yrði vinnu teymisins að vera lokið fyrir þann tíma. Þá kom fram að Analytica ehf. ætti enn eftir að skila endanlegri skýrslu en gert væri ráð fyrir að teymið fengi kynningu á henni á næsta fundi.

2. Kynning á skýrslu KPMG.

Svanbjörn Thoroddsen, ráðgjafi hjá KPMG ehf., kynnti helstu niðurstöður skýrslu KPMG ehf. um framtíðarskipan húsnæðismála.

Til viðbótar við þær upplýsingar sem fram koma í kynningunni var einkum rætt um eftirfarandi atriði á fundi teymisins:

Húsnæðislánastofnanir að danskri fyrirmynd.
Í umræðum um kynninguna komu fram ýmsar spurningar er varða hugsanlega breytingu á húsnæðislánamarkaðnum þess efnis að húsnæðislánastofnunum verði falið það hlutverk að annast veitingu húsnæðislána. Í því sambandi var meðal annars rætt um hvers vegna þörf væri á að breyta því fyrirkomulagi sem nú væri á húsnæðislánamarkaði. Tekið var fram að núverandi fyrirkomulag feli í sér blandaða fjármögnun lánastofnana, þar sé ekki beint samspil á milli fjármögnunarkjara lánastofnana og þeirra kjara sem síðan séu veitt á útlánum. Væri komið á húsnæðislánastofnunum líkt og í Danmörku væri gengið lengra í að aðskilja veitingu húsnæðislána frá annarri starfsemi lánastofnana heldur en gert er með útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Þá væri nýtt fyrirkomulag talið til þess fallið að koma á meira jafnvægi á markaði og koma í veg fyrir sams konar uppgreiðsluvanda og Íbúðalánasjóður hefur orðið fyrir. Til lengri tíma litið myndi nýtt fyrirkomulag fela í sér meiri stöðugleika í framboði og kjörum á húsnæðislánamarkaði. Lendi lánastofnanir í þrengingum megi sjá fyrir sér að slíkt geti haft áhrif á kjör á húsnæðislánum í gildandi fyrirkomulagi en ætla má að minni líkur séu á því að slíkt eigi sér stað þegar veiting húsnæðislána hefur verið falin aðskildri stofnun sem einungis hefur með höndum starfsemi er varðar húsnæðislán. Fyrirkomulag húsnæðislánastofnana takmarki þannig áhættu og auki gagnsæi.

Fram kom spurning um hve háa markaðshlutdeild húsnæðislánafélög hafi í Danmörku. Í því sambandi kom fram að slík félög séu ekki ein um að veita húsnæðislán en að sú starfsemi hafi lítið færst yfir frá húsnæðislánastofnunum til bankanna eftir að slíkt varð heimilt.

Jafnframt kom fram spurning um hvort markaðurinn á Íslandi væri nægilega stór til að unnt yrði að koma á fyrirkomulagi að danskri fyrirmynd á húsnæðislánamarkaði. Í því sambandi var því svarað að nú þegar gæfu tiltekin fjármálafyrirtæki út nokkuð stórar útgáfur af sértryggðum skuldabréfum. Því væri talið raunhæft að þrjár til fimm húsnæðislánastofnanir geti starfað á húsnæðislánamarkaðnum hér á landi og gefið út nægilega stóra flokka til að viðunandi kjör hljótist af.

Enn fremur var rætt um hvaða áhrif það gæti haft á vaxtakostnað að koma á nýju fyrirkomulagi á markaðnum í formi húsnæðislánastofnana. Var því svarað til að talið væri að vaxtakostnaður slíks fyrirkomulags yrði sambærilegur við þann vaxtakostnað sem nú er fyrir hendi í gildandi fyrirkomulagi.

Einnig kom fram sú spurning hvort Íbúðalánasjóður gæti starfað áfram innan þess ramma sem felst í umræddu fyrirkomulagi. Var því svarað til að ekkert væri séð því til fyrirstöðu að Íbúðalánasjóður gæti starfað í formi húsnæðislánastofnunar án ríkisábyrgðar.

Sameining Íbúðalánasjóðs og Landsbankans.
Í umræðum um mögulega sameiningu Íbúðalánasjóðs við Landsbankann kom fram sú spurning hvort talið væri líklegt sú leið samrýmdist ákvæðum samkeppnislaga. Var því svarað til að talið væri ólíklegt væri að samkeppnisyfirvöld myndu heimila slíkan samruna.

Félagslegur Íbúðalánasjóður í samræmi við 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins.
Umræður um möguleikann á að stjórnvöld sinni hlutverki sínu við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði með rekstri „félagslegs Íbúðalánasjóðs“ til samræmis við undanþáguákvæði 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins, sem heimilar veitingu ríkisaðstoðar í formi bóta fyrir almannaþjónustu, snerust einkum um hvort þörf væri á rekstri sérstakrar lánastofnunar til að sinna því hlutverki eða hvort betur færi á að stjórnvöld sinni því hlutverki með einhverjum öðrum hætti. Í því sambandi var meðal annars bent á að rekstri sérstakrar lánastofnunar fylgi mikill rekstrarkostnaður sem e.t.v. mætti komast hjá með annars konar stuðningi en t.d. niðurgreiddum lánveitingum.

Að því er varðar viðbrögð við markaðsbresti á einstaka svæðum var meðal annars bent á möguleikann á alþjónustukvöð sem er þekkt fyrirbæri úr t.d. fjarskiptageiranum en með þeim hætti mætti koma í veg fyrir að ekki sé lánað til tiltekinna svæða á landsbyggðinni. Í því sambandi komu fram sjónarmið um að verði sú leið farin þurfi engu að síður að tryggja að einstaklingar geti haft húsnæðislánaviðskipti sín hjá annarri lánastofnun en þeirri sem fer með önnur bankaviðskipti þeirra. Jafnframt komu fram sjónarmið um að lánastofnanir eigi ekki að geta haft áhrif á byggðarmál með því að neita að lána til tiltekinna svæða.

Ríkið dragi sig af húsnæðislánamarkaði og leggi Íbúðalánasjóð niður.
Umræður um þann kost að ríkið dragi sig af húsnæðislánamarkaði og leggi Íbúðalánasjóð niður, þ.e. að sjóðurinn hætti að veita ný húsnæðislán, vörðuðu meðal annars kosti þess að sú leið yrði farin. Fram kom í því sambandi að áframhaldandi starfsemi Íbúðalánasjóðs hefði í för með sér að ríkið þurfi að halda áfram að leggja sjóðnum til eiginfjárframlög til að verja CAD eiginfjárhlutfall sjóðsins.

Í því sambandi kom fram spurning um hvort ekki mætti leysa þann vanda með því að breyta þeirri kröfu um eiginfjárhlutfall sem kveðið er á um í reglugerð. Var því svarað til með þeim hætti að slík breyting hefði bein áhrif á lánshæfismat Íbúðalánasjóðs, og þar með íslenska ríkisins, og væri þannig ekki með sama hætti til þess fallin að leysa vandann. Þá var bent á að yrði sjóðurinn lagður niður mætti spara umfangsmiklar fjárhæðir sem annars færu í rekstrarkostnað sjóðsins á hverju ári. Hins vegar væri ljóst að uppgreiðsluáhættu sjóðsins yrði ekki eytt því að leggja sjóðinn niður.

Jafnframt var rætt um hvernig hátta mætti innheimtu fyrirliggjandi lánasafns Íbúðalánasjóðs ef umrædd leið yrði farin. Fram komu sjónarmið um að ekki væri ráðlegt að selja lánasafnið til annarra lánastofnana eins og staðan væri í dag. Hins vegar mætti annað hvort draga reksturinn saman og takmarka hann við innheimtu og umsýslu fyrirliggjandi lánasafns Íbúðalánasjóðs eða fela öðrum lánastofnunum að innheimta lánin og annast aðra umsýslu þeirra.

Þá komu fram sjónarmið um að rekstrarkostnaðurinn sem myndi sparast við niðurlagningu Íbúðalánasjóðs yrði einfaldlega velt yfir á neytendur með öðrum hætti í formi hærri vaxta eða gjalda hjá þeirri stofnun eða stofnunum sem falið yrði að annast umsýslu og innheimtu lánasafnsins. Í því sambandi kom fram að áætlað væri að nýtt fyrirkomulag húsnæðislánastofnana myndi hafa í för með sér sambærileg vaxtakjör og bjóðast á húsnæðislánamarkaði í dag. Hins vegar væri slíkt fyrirkomulag talið stuðla að stöðugara og öruggara kerfi til framtíðar.

3. Framhald vinnu á vegum teymisins.

Ákveðið var að næsti fundur skyldi haldinn þriðjudaginn 21. janúar nk. frá 11-13.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum