Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. janúar 2014 Innviðaráðuneytið

Teymi fjögur: 7. fundur um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði

  • Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 7. fundur teymis 4.  Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 21. janúar 2014, kl. 11-12.
  • Málsnúmer: VEL13060104.
  • Mætt: Bolli Þór Bollason (fundarstjóri, verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála), Guðbjartur Hannesson (þingflokkur Samfylkingarinnar), Gylfi Arnbjörnsson (Alþýðusamband Íslands), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Halldór Auðar Svansson (þingflokkur Pírata), Ólöf Birna Björnsdóttir (þingflokkur Framsóknarflokksins), Sigurbjörn Skarphéðinsson (Félag fasteignasala), Soffía Guðmundsdóttir (Íbúðalánasjóður), Tryggvi Þórhallsson (Samband íslenskra sveitarfélaga) ásamt Helgu Maríu Pétursdóttur (velferðarráðuneyti) og Lísu Margréti Sigurðardóttur (velferðarráðuneyti) sem rituðu fundargerð.
  • Forföll: Daníel Hafsteinsson (Búmenn), Elín Hirst (þingflokkur Sjálfstæðisflokksins), Gestur Guðjónsson (þingflokkur Bjartrar framtíðar), Jónína S. Lárusdóttir (Samtök fjármálafyrirtækja), Vilhjálmur Bjarnason (Hagsmunasamtök heimilanna) og Þórný K. Sigmundsdóttir (Samtök leigjenda) voru fjarverandi.
  • Fundarritarar: Helga María Pétursdóttir og Lísa Margrét Sigurðardóttir.

Til kynningar fyrir fundinn sendi fulltrúi Samtaka atvinnulífsins teyminu Minnispunkta um opinberan stuðning vegna húsnæðiskostnaðar og fyrirkomulag fjármögnunar húsnæðis, dags. 17. janúar 2014, með afstöðu Samtakanna til ýmissa álitaefna sem tengjast framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal til opinbers stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar og uppbyggingar á virkum leigumarkaði. Unnt er að nálgast skjalið á eftirfarandi slóð:

D A G S K R Á

1. Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu: kynning fundarstjóra á umfjöllun Analytica ehf.

Fram kom á fundinum að fyrir lægju drög að skýrslu Analytica ehf. um framtíðarskipan húsnæðismála og að stefnt væri að því að teymið fengi nánari kynningu á næsta teymisfundi þegar búið væri að kynna þau drög fyrir verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Fram kom að í drögum að skýrslu Analytica ehf. væri aðallega fjallað um þau álitaefni sem varða verkefni teymis 1, þ.e. hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á Íslandi sé hagkvæmast og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á.

Að því er varðar verkefni teymis 4, þ.e. með hvaða hætti stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði, kom fram að umfjöllun í skýrslum Analytica ehf. og KPMG ehf. eigi þó margt sameiginlegt, þ.e. sömu spurningum sé í grundvallaratriðum velt upp. Þannig komi eftirfarandi spurningar fram í drögum að skýrslu Analytica ehf.:

  • Er Íbúðalánasjóður það fyrirtæki sem best er til þess fallið að veita þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði?
  • Er framlag ríksins til Íbúðalánasjóðs hagkvæmt?

Hvað fyrri spurninguna varðar, bendir Analytica ehf. á að svarið sé háð pólitísku mati en hvað þá síðari varðar telur Analytica ehf. að  það sé erfiðleikum bundið að meta raunverulegt framlag ríkisins til Íbúðalánasjóðs og því sé erfitt að svara því hvort framlag ríkisins til Íbúðalánasjóð sé hagkvæmt. Í því sambandi vísar Analytica ehf. til þess að sjóðurinn njóti ríkisaðstoðar í margvíslegu formi.

2. Umræður um niðurstöður og tillögur teymisins.

Í umræðum teymisins komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að ná víðtækri sátt um framtíðarfyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána jafnt sem með hvaða hætti stjórnvöld sinni í framtíðinni hlutverki sínu við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði/í húsnæðismálum.

Í umræðunum var meðal annars fjallað um kosti þess að framtíðarfyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána á Íslandi verði að danskri fyrirmynd, þ.e. að sérstökum húsnæðislánastofnunum verði falið að veita húsnæðislán.

Fram komu sjónarmið um að væri sú leið farin væri mikilvægt að Íbúðalánasjóður yrði ekki lagður niður heldur yrði infrastrúktúr og þekking sem þar er til staðar nýtt við innleiðingu slíks kerfis. Í því sambandi væri mikilvægt að aðskilja fortíðarvanda Íbúðalánasjóðs frá framtíðarstarfsemi sjóðsins í sinni breyttu mynd. Þannig mætti t.d. hlutafélagavæða Íbúðalánasjóð þannig að hann gæti framvegis starfað í formi húsnæðislánastofnunar án ríkisábyrgðar.

Þá komu fram sjónarmið um að æskilegt væri að komið yrði á fyrirkomulagi þar sem veiting húsnæðislána færi alfarið fram á markaðsforsendum án ríkisaðstoðar. Heppilegt væri að slíkt kerfi yrði að danskri fyrirmynd sem marga kosti hafi í för með sér. Þá væri mikilvægt að þær lánastofnanir sem þegar starfa á húsnæðislánamarkaði hafi með einhverjum hætti kost á aðkomu að slíku kerfi. Þannig mætti meðal annars kveða með löggjöf á um almenn skilyrði sem uppfylla þurfi til vera heimilt að veita húsnæðislán.

Jafnframt var bent á að væri sú leið farin að leggja Íbúðalánasjóð niður verði að skoða vandlega hvað gera eigi við lánasafn sjóðsins. Auk þeirra möguleika sem einkum er fjallað um í skýrslu KPMG ehf., þ.e. að selja lánasafnið frá sjóðnum eða að sjóðurinn annist áfram innheimtu og umsýslu lánasafnsins, var ítrekuð sú hugmynd að skuldara verði sjálfum veittur möguleiki á að velja hvaða lánastofnun muni annast innheimtu á láni skuldarans. Í þessu sambandi vakti fundarstjóri athygli á að nálgun Analytica ehf. á framangreint álitaefni sé örlítið frábrugðin nálgun KPMG ehf. en segja megi að nálgun Analytica ehf. gangi nær þeim kosti að fela öðrum að annast lánasafnið. Analytica ehf. leggi þannig til að stofnuð verði dótturfélög Íbúðalánasjóðs sem falið verði að annast lánasafnið. Líkt og KPMG ehf. meti Analytica ehf. stöðuna svo að slíkt fyrirkomulag myndi kalla á ríkisframlag.

Að því er varðar hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði komu fram sjónarmið um að koma þurfi á húsnæðisbótakerfi sem mismuni ekki einstaklingum eftir því hvort þeir séu á leigumarkaði eða hafi tekið lán til kaupa á eigin húsnæði. Hins vegar sé ljóst að tiltekinn hópur þurfi frekari stuðning og að framkvæmd veitingar sérstakra húsaleigubóta í núverandi kerfi sé ófullkomin. Í því sambandi var t.a.m. bent á að ekki gildi samræmd framkvæmd hjá öllum sveitarfélögum þar um. Þá komu fram sjónarmið um að æskilegt væri að félagslega stuðningskerfið yrði sem einfaldast og gagnsæjast til að draga úr hættu á misnotkun. Jafnframt væri æskilegt að almenna kerfið yrði rekið á markaðsforsendum.

Varðandi þann þátt þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði sem beinst hefur að leigufélögum til að styrkja leigumarkað og félagslegt húsnæði komu fram sjónarmið um að í þessum efnum þurfi einkum að grípa aðgerða til að lækka byggingarkostnað. Slíkar aðgerðir þurfi að miða að því að lækka lóðaverð, gera breytingar á kostnaðarsömum kröfum nýrrar byggingarreglugerðar og lækka fjármagnskostnað. Þá komu fram sjónarmið um að æskilegt væri að ríkisaðstoð til leigufélaga yrði bundin því skilyrði að slík aðstoð sé endurgreidd ef rekstri leigufélags er hætt fremur en að gert sé að skilyrði að slík félög séu rekin án hagnaðarkvaðar. Þannig mætti stuðla að því að leigufélög séu rekin til langs tíma. Jafnframt var tekið fram að mikilvægt væri að sett yrði heildarlöggjöf um leigufélög. Í því sambandi komu jafnframt fram hugmyndir um að sett yrði löggjöf um leigufélög sem njóti ríkisaðstoðar þar sem búið yrði svo um hnúta að leigutekjur nægi til greiðslu á t.d. viðhaldi og uppbyggingu á félaginu en slík félög hafi þó ekki hagnað að markmiði.

Í lok fundarins voru margir fulltrúar sammála um að kanna ætti nánar kosti þess að gera breytingar á fyrirkomulagi fjármögnunar húsnæðislána þar sem áhersla væri meðal annars lögð á aðskilnað starfsemi er varðar húsnæðislánveitingar frá annarri starfsemi lánastofnana með stofnun sérstakra húsnæðislánastofnana þar sem jafnvægi ríki á milli greiðsluflæðis húsnæðislána og fjármögnunar slíkra lána. Þó komu einnig fram sjónarmið um að yrði slíku fyrirkomulagi komið á væri æskilegt að veiting húsnæðislána yrði ekki eingöngu bundin við sérstakar húsnæðislánastofnanir. Þannig gætu þær lánastofnanir sem þegar eru á húsnæðislánamarkaði gefið út sértryggð skuldabréf, m.a. til fjármögnunar íbúðaveðlána og íbúðalána án veðs, án þess að þurfa að stofna til sérstakra húsnæðislánastofnana til að sinna húsnæðislánveitingum fyrir sína hönd.

Enn fremur voru ítrekuð sjónarmið sem fram hafa komið á fyrri fundum teymisins um að tryggja þurfi aðkomu ríkisins að slíku kerfi, t.d. með stofnun húsnæðislánastofnunar í formi hlutafélags í eigu ríkisins sem taki við veitingu almennra húsnæðislána af Íbúðalánasjóði á markaðskjörum án ríkisábyrgðar. Ekki voru þó allir fulltrúar sammála því að ríkið ætti að hafa aðkomu að húsnæðislánamarkaði til framtíðar. 

Þá var almenn samstaða á fundinum um að taka verði sérstaklega á fortíðarvanda Íbúðalánasjóðs. Þannig komu fram hugmyndir um að verði stofnun í eigu ríkisins áfram til staðar á húsnæðislánamarkaðnum sem taki með einhverjum hætti við lánveitingum af Íbúðalánasjóði verði að aðskilja fortíðarvanda Íbúðalánasjóðs frá framtíðarstarfsemi slíks félags.

Að því er varðar hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu voru fulltrúar í teyminu almennt sammála um að æskilegt væri að slík aðstoð færi fram með beinum hætti með einhvers konar samvinnu ríkis og sveitarfélaga en ekki með milligöngu lánastofnunar í eigu ríkisins.

Ákveðið var að umræðum skyldi haldið áfram á lokafundi teymisins þann 22. janúar 2014 þar sem leitast yrði við að draga saman niðurstöður eða tillögur teymisins. Í því sambandi komu þó fram sjónarmið um að í stað þess að teymið myndi skila frá sér einhvers konar niðurstöðum væri æskilegra að það myndi skila frá sér hugmyndum um með hvaða hætti framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði, skuli háttað en að jafnframt yrði lögð áhersla á að greina þyrfti kosti og galla þeirra leiða nánar áður en endanlegar tillögur yrðu lagðar fram til stjórnvalda.

3. Næsti fundur.

Ákveðið var að næsti fundur, síðasti fundur teymisins, skyldi haldinn 22. janúar 2014 frá kl. 15-17.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira