Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. febrúar 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra skrifar í tilefni alþjóðlegs krabbameinsdags

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Grein eftir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í tilefni alþjóðlegs krabbameinsdags 4. febrúar 2014. Greinin birtist í Morgunblaðinu.

Ræðum um krabbamein


Þ
jóðir heims eru hvattar til aukinnar umræðu um krabbamein svo bæta megi þekkingu almennings og draga úr fordómum. Miklar framfarir hafa orðið í meðferð sjúkdómsins en því miður fjölgar þeim sem veikjast, skrifar Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í tilefni alþjóðlega krabbameinsdagsins sem er í dag.

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn er í dag. Að þessu sinni eru þjóðir heims hvattar til aukinnar umræðu um sjúkdóminn svo bæta megi þekkingu almennings og draga úr fordómum.

Afstaða fólks til krabbameins og þeirra sem greinast með þetta mein hefur gjörbreyst á síðustu árum og áratugum. Miklar framfarir hafa orðið í meðferð sjúkdómsins og líkur á lækningu eru mun betri en áður. Því miður fjölgar þeim sem þurfa að berjast við krabbann en árlega greinast um fjórtán hundruð Íslendingar með krabbamein. Rúmlega tveir af hverjum þremur geta vænst þess að lifa í fimm ár eða lengur. Fyrir örfáum áratugum gat aðeins þriðji hver vonast til þess að lifa svo lengi.

Heilbrigðisyfirvöld leggja kapp á að hér sé hægt að veita bestu fáanlega krabbameinsmeðferð. Í velferðarráðuneytinu hefur verið unnið að undirbúningi sérstakrar krabbameinsáætlunar og lýkur þeirri vinnu á komandi misserum. Í áætluninni verður meðal annars fjallað um faraldsfræði krabbameina, helstu áhættuþætti, forvarnir, árvekni og eftirlit, greiningu, meðferðarmöguleika, endurhæfingu og líknandi meðferð. Allt eru þetta þættir sem skipta miklu fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélag. Að gerð þessarar áætlunar koma margir sem búa yfir mikilli fagþekkingu, en ekki er síður tekið mið af sjónarmiðum sjúklinga og sjúklingahópa sem búa yfir reynsluþekkingu. Opin umræða um öll þessi málefni er gagnleg og getur leitt til þess að við náum sameiginlega betri árangri.

Við getum öll tekið þátt í baráttunni gegn krabbameini. Með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð getur hvert og eitt okkar dregið úr líkum á því að fá krabbamein.

Um leið og við stundum heilbrigt líferni er okkur nauðsynlegt að þekkja einkenni sjúkdómsins. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru á lækningu.

Öll umræða um krabbamein er af hinu góða. Við eigum ekki að vera feimin við að ræða um krabbann frekar en aðra sjúkdóma. Gott er að hafa það í huga á þessum alþjóðlega krabbameinsdegi en einnig alla aðra daga ársins.

 Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira