Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Norrænt málþing: Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi

Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org
Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org

Málþing verður haldið á Grand hótel Reykjavík 25. september um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi. Norræna ráðherranefndin, velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið og Jafnréttisstofa efna til þess í tengslum við formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Málþingsstjóri verður Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Barátta gegn kynbundnu ofbeldi er ein af megináherslum Norrænu ráðherranefndarinnar hvað varðar jafnrétti kynjanna enda er það allt of útbreitt og hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga fjölskyldur og samfélagið. Ofbeldið er eitt af því sem kemur í veg fyrir að einstaklingar njóti sömu réttinda og eigi sömu möguleika á að nýta hæfileika sína og aðrir. Danir hafa reiknað út að kynbundið ofbeldi kosti samfélagið um 11 milljarða íslenskra króna. Íslensk rannsókn frá 2008-2010 sýndi að um 40% íslenskra kvenna verða fyrir einhvers konar kynbundnu ofbeldi á ævi sinni. Þá þarf ekki að minna á þá miklu umræðu sem varð hér á landi á síðasta ári um kynferðisofbeldi gegn börnum.

Á málþinginu verður fjallað um Istanbúlsamning Evrópuráðsins og þær skyldur sem hann leggur þjóðum á herðar í baráttu við ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Ísland undirritaði samninginn í maí 2011 og er nú unnið að innleiðingu hans. Það verður portúgalski þingmaðurinn José Mendes Bota sem fjallar um samninginn en hann er formaður þeirrar nefndar Evrópuráðsins sem vann að gerð samningsins.

Niðurstöður nýrrar könnunar á ofbeldi gegn konum í Evrópulöndum

Arni Hole frá Mannréttindastofnun Evrópusambandsins kynnir nýja stóra könnun á ofbeldi gegn konum í 28 Evrópulöndum og sagt verður frá glænýrri og einstakri úttekt Svía á lögum, reglum og aðgerðum sem beitt hefur verið þar í landi í baráttu við ofbeldi. Tilgangurinn var að kanna hvað hefði skilað árangri, hvaða hindranir væru í vegi og hvað þyrfti að gera betur. Það er lögreglustjórinn Carin Götblad sem kynnir úttektina sem hún stýrði. Þá verða kynnt verkefni frá öllum Norðurlandaþjóðunum sem gefist hafa vel. Þar á meðal er áhættumat norsku lögreglunnar SARA sem verið er að innleiða um allan Noreg, íslenska Suðurnesjaverkefnið, reynsla Dana af aðgerðaáætlunum gegn kynbundnu ofbeldi og skönnun sem beitt er innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar í Finnlandi til að greina ofbeldi.

Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir.  Endanleg dagskrá verður kynnt síðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira