Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. maí 2014 Dómsmálaráðuneytið

Tekið verður við flóttafjölskyldum frá Sýrlandi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu innanríkisráðherra, velferðarráðherra og utanríkisráðherra að taka á móti flóttafjölskyldum frá Sýrlandi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sendi aðildarríkjum neyðarkall nýverið um að þau komi til aðstoðar og taki á móti flóttafólki frá Sýrlandi sem hefur leitað til nágrannaríkjanna til þess að létta á þeim mikla þrýstingi sem þar hefur myndast.

Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í Sýrlandi og nágrannaríkjum vilja íslensk stjórnvöld leggja sitt að mörkum og taka til viðbótar á móti hópi fólks sem er á flótta undan þeim mikla mannúðarvanda sem að steðjar. Með því verður Ísland hvatning annarra aðildarríkja sem eru að íhuga að verða við ákallinu.

Áhersla verður lögð á að taka sérstaklega á móti börnum sem hafa slasast eða glíma við önnur veikindi og fjölskyldum þeirra. Er það til viðbótar þeim flóttamönnum sem þegar hefur verið ákveðið að taka á móti en íslensk stjórnvöld hafa þegar ákveðið að taka á móti sérstaklega viðkvæmum hópum flóttafólks á þessu ári, konum í neyð og hinsegin fólki.

Flóttamannanefnd verður falið að leggja fram tillögu um móttöku flóttamannanna í samvinnu við Flóttamannastofnun SÞ og stefnt er að því að tillögur nefndarinnar berist ríkisstjórninni innan tveggja vikna.

Stríðsátökin í Sýrlandi hafa nú verið viðvarandi í yfir þrjú ár með skelfilegum afleiðingum  fyrir sýrlenska borgara. Talið er að um 9 milljónir einstaklinga hafi þurft að yfirgefa heimili sín í Sýrlandi vegna átakanna og hafa um 2,5 milljónir þeirra leitað til nágrannaríkja Sýrlands. Nágrannaríkin reyna eftir fremsta megni að aðstoða flóttafólkið sem hefur haft í för með sér mikið álag og reynist þeim erfitt að sinna svo miklum fjölda. Spenna ríkir í þessum löndum og óttast nú alþjóðasamfélagið að slík spenna geti orsakað að átökin í Sýrlandi berist til fleiri ríkja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum