Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. október 2014 Dómsmálaráðuneytið

Kynnti sér framkvæmdir við nýtt fangelsi

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í gær fangelsisbygginguna á Hólmsheiði sem nú er að rísa. Páll E. Winkel fangelsismálastjóri og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar, og fleiri sögðu frá stöðu framkvæmdanna.

Hanna Birna Kristjánsdóttir skoðaði framkvæmdir við fangelsið á Hólmsheiði. Með henni á myndi eru Páll E. Winkel og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir skoðaði framkvæmdir við fangelsið á Hólmsheiði. Með henni á myndi eru Páll E. Winkel og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði verður með 56 fangarýmum og verður hluti rýmanna í sérstakri deild fyrir kvenfanga en að öðru leyti er í fangelsinu aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Nýja fangelsið mun leysa af Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði við kynninguna að eins og staðan væri í dag væri útlit fyrir að bæði verkáætlun og fjárhagsáætlun framkvæmdarinnar stæðust og enginn alvarlegur vandi hefði komið upp. Kostnaður við bygginguna er áætlaður um 2,7 milljarðar króna og er þá meðtalinn undirbúningskostnaður, kostnaður við samkeppni og hönnun og allan lóðarfrágang.

Páll E. Winkel fangelsismálastjóri sagði fangelsið á Hólmsheiði gjörbreyta allri aðstöðu og bæta aðbúnað bæði fanga og fangavarða. Hann sagði reksturinn verða hagkvæmari en í dag og yrði kostnaður við hvern fanga í nýja húsnæðinu kringum 14 þúsund krónur á sólarhring en hann væri í öðrum fangelsum í dag um 24 þúsund krónur.

Framkvæmdir hófust í kjölfar fyrstu skóflustungu 4. apríl 2013 og er gert ráð fyrir að húsið verði orðið fokhelt síðar í haust. Framkvæmdum á að ljúka í árslok 2015.

Framkvæmdir við fangelsið á Hólmsheiði eru á áætlun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira