Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. nóvember 2014 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Strengjum þess heit sem samfélag að fækka umferðarslysum

„Strengjum þess heit sem samfélag að fækka umferðarslysum,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, m.a. í ávarpi sínu við athöfn sem haldin var við bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi í dag, á árlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Efnt var til hliðstæðrar athafnar víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Minnst var látinna með einnar mínútu þögn og um leið var þeim starfsstéttum þakkað sem sinna viðbrögðum og meðferð fólks vegna umferðarslysa.

Frá athöfn til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.
Frá athöfn til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum. Ljósm. Þorkell Þorkelsson.

Minningardagur um þá sem látist hafa í umferðarslysum var nú haldinn í fjórða sinn hér á landi en þessi dagur hefur ekki aðeins verið tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur jafnframt skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Landsmenn eru hvattir til að nota þennan dag til að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni, íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber sem þátttakandi þar.

Frá athöfnin til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.Athöfninni stýrði Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu, en ávörp fluttu, auk forseta Íslands, þær Ása Sigurjóna Þorsteinsdóttir, sem lenti í alvarlegu umferðarslysi árið 2010, og Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir á Landspítalanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á þyrlupallinum við spítalann fyrir athöfnina og jafnframt var stillt upp tækjum frá lögreglunni, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og björgunarsveitum Landsbjargar. Viðstaddir voru fulltrúar starfsstétta sem koma að björgun og aðhlynningu eftir umferðarslys, svo sem lögreglu, Landhelgisgæslu, björgunarsveita og heilbrigðisstétta, sem ávallt eru á vakt og tilbúin að bregðast við þegar slys verður.

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu stýrði athöfninni.Ragnhildur Hjaltadóttir sagði m.a. frá tilurð þessa minningardags hér á landi. Hann er skipulagður af sameiginlegri nefnd innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins sem innanríkisráðherra skipaði í tilefni umferðaröryggisátaks Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem kallast Áratugur aðgerða. „Umferðaröryggi er viðvarandi átak og aldrei má sofna á vaktinni“, sagði Ragnhildur. „Þessi minningardagur skiptir miklu máli því við getum öll haft áhrif á þróunina - við erum öll þátttakendur í umferðinni á einn eða annan hátt - okkar hegðun skiptir sköpum,“ sagði hún og bar einnig kveðju Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sem stödd var erlendis.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands heilsar viðbragðsaðilum.Ólafur Ragnar Grímsson minntist í ávarpi sínu þeirra sem látist hafa í umferðarslysum og vottaði ættingjum þeirra og vinum samúð. „En við erum hér líka saman komin í dag til að styrkja þá sem slasast hafa og hvetja þá til að halda áfram á braut endurhæfingar og nýs lífs, þó margir nái sér aldrei að fullu og lífið fái aldrei aftur á sig sama blæ og áður.“ Hann þakkaði öllu því góða fólki sem tilheyrir þeim starfsstéttum sem koma að björgun, aðhlynningu og endurhæfingu slasaðra og sagði ánægjulegt að sjá svo marga fulltrúa þeirra við athöfnina. Þá sagði hann mikilvægt að við strengjum þess heit sem samfélag að fækka umferðarslysum - það sé hlutverk okkar allra sem höldum út í umferðina. „Okkur hefur tekist að ná góðum árangri á undanförnum árum þrátt fyrir aukna umferð. Þá hefur verið ánægjulegt að kynnast því hve vaxandi alþjóðlegur áhugi er á samstarfi á þessu sviði og hvernig ýmsir vilja ganga í smiðju til okkar Íslendinga.“  

Ása Sigurjóna Þorsteinsdóttir flytur ávarp sitt.Ása Sigurjóna Þorsteinsdóttir, sem lenti í hörmulegu umferðarslysi á Suðurnesjum árið 2010, sagði sögu sína í minningu tveggja bestu vinkvenna sinna, Lenu Margrétar og Unnar Lilju, sem létust í slysinu átján ára gamlar. „Þetta byrjaði sem venjulegur dagur - ég fór út að skemmta mér með bestu vinkonum mínum. Ég man að við fórum í partý - en ég man ekki eftir bílferðinni sem varð þess valdandi að ég vaknaði ekki fyrr en tólf dögum síðar. Þegar ég kom úr dáinu var búið að jarða tvær bestu vinkonur mínar. Allir í bílnum voru undir áhrifum áfengis og ég er heppin að vera á lífi, því ég var ekki í bílbelti og slasaðist mjög mikið.
Þetta er búið að hafa mikil áhrif á líf mitt en ég reyni mitt besta - tek einn dag í einu. Það er ótrúlegt hvað einn dagur sem byrjaði sem venjulegur dagur getur orðið að martröð. Ég hvet alla til að hugsa sig tvisvar um og passa sig. Það þarf ekki mikið til að allt lífið breytist á örskotsstundu.“

Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir.Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans, flutti ávarp fyrir hönd viðbragðsaðila. Hún hefur bæði tekið á móti slösuðum við komu á spítala og farið út á vettvang með neyðarbíl eða þyrlu. Þá hefur hún starfað á endurhæfingardeild Grensás og kynnst því mikla starfi sem þar fer fram, „og oft á tíðum ótrúlegum sigrum mannsandans sem hetjur hversdagsins vinna,“ eins og hún orðaði það. Hún sagðist stolt vinna með öllu því fólki, bæði á vettvangi og á sjúkrahúsi, sem þarf til að vinnan við björgun gangi sem best.
„En þó við séum að vinna á þessum vettvangi venst mannleg þjáning aldrei. Ég er búin að tilkynna allt of mörgum um missi eða alvarleg meiðsl aðstandenda af völdum umferðarslysa. Mér finnst þessi tollur, hreinlega mannfórn, sem umferðin tekur fyrir að fara á milli staða á þægilegan hátt, sé allt of hár og í raun algjörlega óásættanlegur. Reynslan og tölurnar sýna að að baki hverjum einum sem lætur lífið í umferðarslysi, með öllum þeim mannlega harmleik sem því fylgir, séu að meðaltali tíu sem eru alvarlega slasaðir og þar af þrír sem búi við varanleg örkuml. Þessi hópur syrgir oft fyrra líf og verður oft útundan í samfélaginu - og ég vil líka að við hugsum til þeirra hér í dag og hvernig við getum breytt því.“
Kristín sagði við lok ávarps síns að við séum á réttri leið á Íslandi því banaslysum hafi farið fækkandi. „Það er því búið að sýna fram á að það að missa fólk í umferðinni er ekki sjálfsagður hlutur.“

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira