Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. nóvember 2014 Innviðaráðuneytið

Niðurstöður könnunar á leiguíbúðum sveitarfélaga

Niðurstöður liggja fyrir úr árlegri könnun Varasjóðs húsnæðismála um leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga um land allt. Í árslok 2013 voru leiguíbúðir sveitarfélaga rúmlega 4.900 og hafði fjölgað um 1,2% frá fyrra ári. Um 40 sveitarfélög telja sig búa við skort á leiguíbúðum en sex eru með áform um fjölgun þeirra.

Varasjóður húsnæðismála hefur gert könnun sem þessa árlega allt frá árinu 2004. Markmiðið er að fylgjast með framvindu og breytingum á stöðu leiguíbúðakerfisins og afla upplýsinga sem nýst geta við stefnumótun stjórnvalda í húsnæðismálum.

Niðurstöður könnunarinnar sýna meðal annars að vandi sveitarfélaga vegna íbúða sem standa auðar um lengri tíma heyrir sögunni til en áður var þetta töluvert vandamál, einkum á Vestfjörðum. Rekstrarvandi sveitarfélaga vegna leiguíbúða fer minnkandi. Árið 2011 glímdi 31 sveitarfélag við rekstrarvanda vegna leiguíbúða samkvæmt svörum við könnun Varasjóðs húsnæðismála en hefur fækkað niður í 25 sveitarfélög.

Þeim sveitarfélögum sem telja sig búa við skort á leiguhúsnæði hefur fjölgað. Þegar fyrst var spurt um þetta atriði árið 2009 töldu 23 þeirra svo vera en 40 árið 2013.

Aðeins sex sveitarfélög hafa á prjónunum að fjölga í náinni framtíð leiguíbúðum sínum, samtals um 286 íbúðir. Mest munar um áform Félagsbústaða hf. í Reykjavík um að byggja 200 íbúðir og festa kaup á 20 íbúðum. Þrjú stór sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Kópavogur, Hafnarfjarðarkaupstaður og Mosfellsbær áforma að fjölga leigubúðum.

Að þessu sinni var í fyrsta sinn spurt um það hversu margar umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði hefðu borist sveitarfélaginu á árinu 2013 og einnig hve margir umsækjendur hefðu verið á biðlista þess eftir félagslegu leiguhúsnæði við lok þess árs. Fjöldi fólks sem sótt hefur um félagslega leiguíbúð er langmestur í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Sama á við fjölda þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Um 70% umsóknanna eru um leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og um 80% þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð búa á höfuðborgarsvæðinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira