Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. desember 2014 Félagsmálaráðuneytið

22. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 22. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Velferðarráðuneytið, 17. desember 2014. Kl. 14.00 – 16.00.
Málsnúmer:
VEL12100264.

Mætt: Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður aðgerðahóps - í síma (AKÁ), Ása Sigríður Þórisdóttir (ÁSÞ, BHM), Benedikt Þór Valsson (BÞV, Svf), Guðný Einarsdóttir (GE, FJR), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Jóna Pálsdóttir (JP, MRN), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps, og Eva Margrét Kristinsdóttir (EMK, VEL).

Fundarritarar: Eva Margrét Kristinsdóttir og Rósa G. Erlingsdóttir.

Dagskrá:

1.            Fundargerð 21. fundar lögð fram til samþykktar.

Fundargerð samþykkt.

2.            Kynning á niðurstöðum rannsóknar á kynbundnum launamun.

Margrét Vala frá Hagstofunni kom á fundinn og kynnti niðurstöður rannsóknar á kynbundnum launamun. Ekki hefur verið gengið frá niðurstöðum rannsóknarinnar til opinberrar birtingar en Hagstofan hefur afhent undirhóp aðgerðahópsins gögnin til skoðunar og frekari úrvinnslu. Sigurður Snævarr hagfræðingur er tilbúinn að taka að sér að skrifa skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar. Verið er að skoða umfang verkefnisins en stefnt er að því að birta skýrsluna vorið 2015.

3.            Fjármögnun verkefna aðgerðahóps.

Farið var yfir fjármögnun verkefna aðgerðahóps. Samtök aðila vinnumarkaðarins fá senda reikninga frá velferðarráðuneytinu fyrir samþykktri kostnaðarhlutdeild í verkefnunum.

4.            Drög að verkefnaáætlun fyrir 2015.

Farið var yfir drög verkefnaáætlunar fyrir árið 2015. Almenn ánægja var með þær hugmyndir sem fram komu í drögunum. Starfsmaður hópsins mun útfæra drögin frekar og leggja fram til samþykktar á næsta fundi. Upplýst var að fengist hefur fjármagn úr framkvæmdasjóði jafnréttismála til að ráðast í verkefni í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Stefnt er að því að halda á komandi vori ráðstefnu um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði þar sem niðurstöður rannsóknarverkefna aðgerðahópsins verða kynntar. Fulltrúar hópsins tóku vel í þá hugmynd að leita eftir samstarfi við framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og tengja þannig ráðstefnuna þessum tímamótum.

5.            Önnur mál.

  • Tillaga Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um framlengingu á skipunartíma aðgerðahópsins um tvö ár var samþykkt á ríkisstjórnarfundi þann 24. október síðastliðinn. Ný tilnefningarbréf verða send til þeirra samtaka sem eiga fulltrúa í hópnum.
  • Námskeið vegna jafnlaunavottunar verður haldið í byrjun árs 2015 í samræmi við 6. gr. reglugerðar um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012.  Þar kemur fram að ráðuneytið skuli sjá til þess að haldið verði námskeið fyrir úttektarmenn í jafnréttis- og vinnumarkaðsmálum sem þýðingu hafa fyrir vottun í samræmi við kröfur staðalsins svo uppfylla megi kröfur faggildingarstaðalsins ÍST EN ISO/IEC 17021 um sérfræðiþekkingu á því sviði sem um ræðir. Endurmenntun Háskóla Íslands mun halda námskeiðið í samstarfi við ráðuneytið. Nánar verður upplýst um tilhögun námskeiðsins á næsta fundi hópsins.
  • Samþykkt var tillaga að fundartímum á fyrri hluta árs 2015. Fundað verður fyrsta miðvikudag í mánuði milli klukkan 14–16.  

Næsti fundur verður haldinn 7. janúar í velferðarráðuneytinu kl. 14–16.

Eva Margrét Kristinsdóttir og Rósa Guðrún Erlingsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira