Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. janúar 2015 Dómsmálaráðuneytið

Kærunefnd útlendingamála tekur til starfa

Kærunefnd útlendingamála hefur tekið til starfa en nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem sett var á fót í kjölfar breytinga síðastliðið vor á lögum um útlendinga nr. 96/2002. Felst lagabreytingin í því að almenn kæruleið vegna ákvarðana um útlendingamál hefur verið færð frá innanríkisráðherra til hinnar nýju kærunefndar og hefur hún sömu valdheimildir og ráðherra til að úrskurða í kærumálum.

Nefndin hefur aðsetur í húsnæði stjórnarráðsins við Skuggasund í Reykjavík og er símanúmer hennar 510 0510 og netfang [email protected].

Hjörtur Bragi Sverrisson, framkvæmdastjóri mannréttindadeildar ÖSE í Kosovo, hefur verið skipaður formaður úrskurðarnefndarinnar og samkvæmt lögunum skal hann hafa starfið að aðalstarfi. Auk hans starfa hjá nefndinni fjórir lögfræðingar og ritari.

Markmiðið með skipan kærunefndar er meðal annars að mæta gagnrýni á það fyrirkomulag sem ríkt hefur að innanríkisráðuneytið endurskoði ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Um skipan kærunefndarinnar segir meðal annars svo í lögunum:

  • Ráðherra skipar kærunefnd útlendingamála til fimm ára í senn.
  • Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Nefndarmenn skulu vera sérfróðir um mál er lög þessi ná til.
  • Formaður nefndarinnar skal hafa starfið að aðalstarfi. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara.

Reglugerð um störf og starfshætti kærunefndarinnar var kynnt á vef ráðuneytisins og eru nokkrar umsagnir nú í úrvinnslu. Gera má ráð fyrir að reglugerðin verði gefin út fljótlega.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira