Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. febrúar 2015 Innviðaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi til breytinga á siglingalögum til kynningar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985 með síðari breytingum, eru nú til kynningar hjá ráðuneytinu. Unnt er að senda umsagnir á netfangið [email protected] til og með 20. febrúar næstkomandi.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009 frá 23. apríl 2009, um bótaábyrgð flutningsaðila vegna slysa við farþegaflutninga á sjó. Þá er einnig lagt til að bætt sé við refsiheimild vegna ábyrgðar útgerðarmanna á að tryggja skip sín fyrir sjóréttarkröfum, sbr. 1. mgr. 171. gr. a siglingalaga, vegna innleiðingar á tilskipun 2009/20/EB en sú tilskipun var að mestu leyti innleidd með lögum nr. 46/2012 en þá misfórst að taka upp slíka heimild og er það því lagt til hér.

Með reglugerð (EB) nr. 392/2009 eru tekin upp ákvæði Aþenusamningsins um flutning farþega og farangurs þeirra á sjó frá 1974 eins og honum var breytt með bókun árið 2002 (Athens Convention relating to the Carriage of Passengers and their Luggage by Sea). Til viðbótar ákvæðum Aþenusamningsins er að finna ýmis ákvæði sem ætlað er að styrkja stöðu farþega við sjóslys, s.s. um bætur í tengslum við ferlihjálpartæki, upplýsingagjöf til farþega o.fl.

Reglugerðin gildir um skip í millilandasiglingum og skip í innanlandssiglingum í flokki A og B en flokkun farþegaskipa í innanlandssiglingum fer eftir því á hvaða hafsvæði þau sigla. Heimilt er að láta reglugerðina taka einnig til skipa í flokki C og D en það er ekki lagt til með frumvarpi þessu. Þess í stað eru nokkur ákvæði siglingalaga sem gilda um slík skip samræmd ákvæðum reglugerðarinnar en það varðar fyrst og fremst hlutlæga ábyrgð farsala á lífs- og líkamstjóni farþega vegna atviks við sjóflutninga og takmörkunarupphæðir. Ástæða þess að reglugerðin er ekki látin taka til skipa í flokki C og D er sú að ekki eru forsendur til að meta hvort útgerðir slíkra skipa geti tekið á sig það aukna hlutverk sem skipum í flokki A og B eru falin með reglugerðinni.

Helstu ákvæði reglugerðarinnar eru:

  • Farsali ber hlutlæga ábyrgð upp að 250.000 SDR (sérstök dráttarréttindi) vegna andláts og meiðsla farþega sem orsakast af atviki við sjóflutninga.
  • Farsali skal bæta tjón ef ferlihjálpartæki eða annað sérstakt hjálpartæki, sem hreyfihamlaður farþegi notar, glatast eða verður fyrir tjóni.
  • Ef farþegi lætur lífið eða verður fyrir meiðslum vegna atviks við sjóflutninga skal farsali inna af hendi fyrirframgreiðslu sem nægir til að standa straum af brýnustu fjárþörf.
  • Farsali skal veita farþegum upplýsingar um réttindi þeirra samkvæmt reglugerðinni.

Gert er ráð fyrir að hin breyttu siglingalög taki gildi gagnvart skipum í flokki A frá 30. desember 2016 og gagnvart skipum í flokki B, C og D frá 30. desember 2018. Með því er útgerðum slíkra skipa veittur rúmur frestur til að aðlaga sig að breyttum reglum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum