Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. júlí 2015 Dómsmálaráðuneytið

Undirbúningur hafinn vegna breytinga á lögræðislögum

Hinn 1. júlí sl. samþykkti Alþingi lög sem fela í sér breytingar á ákvæðum lögræðislaga. Markmið laganna er að bæta framkvæmd lögræðislaga og tryggja að lagaumhverfi og verklag sé í samræmi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar en breytingin er meðal annars liður í undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Breytingarnar sem verða með gildistöku laganna 1. janúar nk. varða ákvæði um lögræði, sviptingu lögræðis, málsmeðferð, nauðungarvistanir, yfirlögráðendur og eftirlit þeirra með lögráðamönnum, skrár á grundvelli laganna og yfirfærslu verkefna frá ráðuneytinu til sýslumanna og Þjóðskrár Íslands. Lögin eru í stórum dráttum samhljóða frumvarpi því er innanríkisráðherra mælti fyrir á Alþingi hinn 28. apríl sl., með nokkrum breytingum þó. Helsta breytingin varðar ákvæði laganna um aðkomu aðstandenda að beiðnum um nauðungarvistun einstaklinga en samkvæmt breytingunum verður það einungis félagsþjónusta sveitarfélaga sem getur lagt fram beiðni um nauðungarvistun en ekki jafnframt aðstandendur. Þess má geta að innanríkisráðherra hafði í framsöguræðu sinni á Alþingi hvatt nefndina til að fara rækilega yfir þau sjónarmið sem lágu að baki aðkomu aðstandenda að beiðni um nauðgungarvistanir.

Við undirbúning frumvarpsins átti innanríkisráðuneytið samráð við fjölmarga hagsmunaaðila. Þá vekur ráðuneytið athygli á þverpólitískri samstöðu sem myndaðist um framgang málsins við meðferð þess á Alþingi enda varðar málið mikilsverð persónuleg réttindi.

Fram að gildistöku laganna mun ráðuneytið vinna að undirbúningi vegna þeirra breytinga sem lögin hafa í för með sér. Meðal þeirra verkefna er setning reglugerða, undirbúningur yfirfærslu verkefna til stofnana og samráð við velferðarráðuneyti, sveitarfélög og helstu aðila sem breytingarnar varða. Þeim sem vilja koma að ábendingum í tengslum við fyrirhugaða vinnu er bent á að senda upplýsingar þess efnis á netfangið [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira