Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2015 Innviðaráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Rúmur tveir og hálfur milljarður í húsnæðismál

Fjölbýli
Fjölbýli

Aðgerðir til úrbóta í húsnæðismálum landsmanna eru forgangsverkefni, líkt og endurspeglast í fjárlagafrumvarpi ársins 2016. Gert er ráð fyrir að 2,64 milljörðum króna verði varið samtals til uppbyggingar félagslegs húsnæðis og í nýtt húsnæðisbótakerfi.

Samkvæmt frumvarpinu verður rúmum 1,1 milljarði króna varið til aukins húsnæðisstuðnings við leigjendur á almennum leigumarkaði á næsta ári. Grunnfjárhæð bótanna og frítekjumörk verða hækkuð. Við útreikning bótanna munu fjárhæðir taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri í stað fjölskyldugerðar eða fjölda barna líkt og verið hefur. Með þessu móti er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili. Markmiðið er að auka húsnæðisstuðning við leigjendur þannig að hann verði jafnari húsnæðisstuðningi hins opinbera við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins.

Um 1,5 milljarður í félagslegt leiguhúsnæði

Auk þeirra fjármuna sem varið verður til aukins húsnæðisstuðnings við leigjendur er ráðgert að hefja átak í uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis á næsta ári og verja til þess 1,5 milljörðum króna. Þetta er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí sl. í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í henni var lýst ákvörðun stjórnvalda um að byggja 2.300 leiguíbúðir á næstu fjórum árum sem yrði fjármögnuð með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins. Á vegum stjórnvalda eru nú starfandi vinnuhópar með hagsmunaaðilum þar sem unnið er að nánari útfærslu þessara aðgerða og er ráðgert að þær útfærslur muni liggja fyrir síðar í haust fyrir afgreiðslu Alþingis á fjárlagafrumvarpinu.

Aukið fé til starfsendurhæfingar

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verða framlög til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs aukin um 450 milljónir króna og er það í samræmi við samkomulag stjórnvalda og heildarsamtaka vinnumarkaðarins frá því í mars síðastliðnum þar sem kveðið var á um hvernig framlögum úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóða skyldi háttað. Samkomulagið tryggir að öllum sem á þurfa að halda er nú tryggð atvinnutengd starfsendurhæfing til að verða virkir á vinnumarkaði.

Framhald verkefnis um Notendastýrða persónulega aðstoð

Alls verður 85 milljónum króna varið til tilraunaverkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlaða (NPA) árið 2016. Alþingi samþykkti á síðasta þingi lagabreytingu sem kvað á um að áfram yrði unnið að NPA sem tilraunaverkefni til ársloka 2016. Faglegt og fjárhagslegt mat á NPA verkefninu stendur yfir. Stefnt er að því að ljúka því mati í lok næsta árs og að þá verði einnig lokið endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira