Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. september 2015 Innviðaráðuneytið

Flutninga- og samgöngukerfið er grundvallarforsenda búsetugæða og atvinnulífs

Flutningalandið Ísland var yfirskrift ráðstefnu sem Sjávarklasinn stóð fyrir og var fjallað um spurninguna hvernig byggja eigi upp flutningakerfið á Íslandi. Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar og sagði meðal annars að flutningar snertu alla innviði þjóðfélagsins og að það væri fyrirferðarmikill málaflokkur í innanríkisráðuneytinu. Flutninga- og samgöngukerfið væri ein heild og grundvallarforsenda búsetugæða og öflugs atvinnulífs.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp við upphaf ráðstefnunnar um flutningalandið Ísland.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp við upphaf ráðstefnunnar um flutningalandið Ísland.

Á ráðstefnu Sjávarklasans fluttu innlendir og erlendir sérfræðingar erindi um hin ýmsu svið flutninga, um innviði, atvinnulíf og útflutning og ræddu spurninguna hvernig byggja eigi upp flutningakerfið á Íslandi. Fjallað var um tækifærin í sjávarútvegi með öflugu flutninganeti, um þróun fiskvinnslu og fiskflutninga um landið á síðustu áratugum og um dreifingu og flutninga frá Akureyri. Einnig um flugvelli og matvælaframleiðslu framtíðar, hvort flutningakerfið væri tilbúið.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði samgönguáætlun hverju sinni vera aðal stefnuskrá stjórnvalda, leiðarvísi og landakort. ,,Þar á ég bæði við framkvæmdaáætlunina til fjögurra ára og síðan hina viðamiklu 12 ára áætlun þar sem lagðar eru megin línur. Þessi stefnumörkun á sér stað yfir langan tíma og sker mörg kjörtímabil í lífi stjórnmálamannsins. Það er af hinu góða þegar um slíka grundvallarstefnumótun er að ræða fyrir landsmenn alla. Stefnt er að því að leggja þessar áætlanir fyrir Alþingi nú í haust og eru lokadrög þeirra nú í vinnslu eftir að umsagnartíma fyrir umhverfismat tólf ára samgönguáætlunarinnar lýkur sem verður á næstu vikum.“ Þá sagði ráðherra aðal áherslur vera þessar: Að samgöngukerfið þjóni íbúum og atvinnulífi með skilvirkum hætti, að bæta öryggi, að auka hlut vistvænna orkugjafa og að einkaaðilar komi að uppbyggingu og rekstri mannvirkja sem hún sagði eitt brýnasta úrlausnarefnið á þessu sviði. Þá fjallaði ráðherra um flugvelli, siglingar og vegakerfið og sagði ljóst að mikil þörf væri á fjárfestingu innviða á þessum sviðum á næstu árum.

Í lokin ræddi hún norðurslóðir og siglingaleiðina milli Asíu og Evrópu og sagði mikilvægt að fylgjast með allri þróun á þeim sviðum. Gæta yrði þess að menn misstu ekki af neinum tækifærum ef þau væru raunhæf fyrir innviði landsins eða þjónustu.

Frá ráðstefnunni um flutningalandið Ísland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum