Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. janúar 2016 Félagsmálaráðuneytið

Við fæðumst fordómalaus - hvað svo?

Við fæðumst fordómalaus
Við fæðumst fordómalaus

Innflytjendaráð í samstarfi við velferðarráðuneytið hefur hleypt af stokkunum átaksverkefninu „Við fæðumst fordómalaus - hvað svo?“ Verkefninu er ætlað að skapa umræðu um þá fordóma sem við fullorðna fólkið ölum gjarnan með okkur og hvetja okkur til að sjá hlutina með augum barna. Því þótt börnin læri svo sannarlega það sem fyrir þeim er haft - og mest af okkur fullorðna fólkinu - getum við vel lært ýmislegt af þeim. T.d. einstaklega jákvætt, einfalt og rökrétt viðhorf gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Til að freista þess að fanga þetta viðhorf fékk innflytjendaráð auglýsingastofuna Árnasyni, í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Tjarnargötuna og Ævar Vísindamann, til að taka stutt viðtöl við nokkur íslensk börn og biðja þau um að svara örfáum spurningum tengdum fordómum. Börnin sýndu fádæma fordómaleysi þegar þau svöruðu vandalaust spurningum eins og „Veist þú hvað innflytjendur eru?“ sem eitt barnið svaraði svo fallega: „Ég held það sé vinátta.“ Svarið er ef til vill hæpin orðabókarskilgreining en væri ekki samfélagi okkar hollt að styðjast engu að síður við það nú þegar innflytjendum fjölgar á ný hérlendis og samfélagið er að undirbúa sig undir að taka á móti hópum flóttafólks.

Á Íslandi búa 24.300 einstaklingar með erlent ríkisfang, sem er 7,4% þjóðarinnar. Fólk kemur hingað af margvíslegum og mismunandi ástæðum, t.d. einstaklingar og fjölskyldur sem koma hingað í leit að nýjum tækifærum, ævintýraþrá er hvati einhverra og eins kemur hér fólk sem þurft hefur að flýja heimkynni sín. Þetta er fólk með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu, menntun og þekkingu og auðgar samfélagið á margvíslegan máta.

Þá má geta þess að nýlega var auglýst eftir umsóknum um framlög úr þróunarsjóði innflytjendamála. Að þessu sinni er áhersla lögð á rannsóknar- og þróunarverkefni sem leggja áherslu á mannauðinn sem býr í innflytjendum og þann styrk sem innflytjendur færa íslensku samfélagi og rannsóknar- og þróunarverkefni sem stuðla að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og auka sýnileika þeirra. Umsóknarfrestur rennur út 22. janúar nk.

Stuttmyndin; Við fæðumst fordómalaus - hvað svo?

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira