Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. mars 2016 Dómsmálaráðuneytið

Önnur úttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi stendur yfir

Á þessu ári stendur yfir önnur úttekt á stöðu mannréttindamála hér á landi en fyrsta úttektin fór fram árið 2008 þegar Sameinuðu þjóðirnar hófu almenna úttekt á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjum (Universal Periodical Review, UPR). Tilgangur úttektarferlisins er bæði að varpa ljósi á það sem vel er gert í mannréttindamálum og benda á atriði sem ríki telja að betur megi fara í framkvæmd hvert annars. Í því skyni beina þau tilmælum hvert til annars og hefur ríkið sem er til skoðunar þá tækifæri til þess að taka afstöðu til þeirra.

Ísland þarf að skila skýrslu vegna úttektarinnar 1. ágúst sem verður tekin fyrir í Genf 1. nóvember næstkomandi. Í yfirstandandi úttekt er ætlast til að áhersla verði lögð á þá þróun sem hefur átt sér stað síðan síðasta úttekt fór fram, hvort og þá hvernig brugðist hefur verið við athugasemdum sem fram komu í kjölfar úttektarinnar sem og að benda á árangur sem náðst hefur, framkvæmd sem er til fyrirmyndar og jafnframt áskoranir og erfiðleika sem hafa komið upp við innleiðingu þeirra athugasemda sem var samþykkt að bregðast við eftir fyrstu úttektina.

Fyrsta úttektin 2011

Fyrsta úttektin á stöðu mannréttindamála á Íslandi fór fram 2011 og fengu íslensk stjórnvöld samtals 84 athugasemdir. Fjölmargar voru jákvæðar og veittu fulltrúar í mannréttindaráði SÞ meðal annars athygli aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að vinna að jafnrétti kynjanna, aðgerðum gegn mansali og vændi, bættri löggjöf um hælisleitendur auk þess sem Barnahúsi var hrósað sérstaklega og stjórnvöld hvött til þess að vinna að útbreiðslu á þess konar starfsemi í öðrum ríkjum svo eitthvað sé nefnt. Flestar athugasemdanna lutu að áhyggjum af stöðu útlendinga, kynbundnu ofbeldi og meðferð kynferðisbrota og heimilisofbeldismála, kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, jafnrétti kynjanna og fangelsismálum. Einnig voru íslensk stjórnvöld hvött til að koma á laggirnar mannréttindastofnun í samræmi við alþjóðleg viðmið og undirgangast ýmsar mannréttindaskuldbindingar.

Hægt að koma að sjónarmiðum til 24. mars

Í úttektarferlinu er lögð áhersla á að frjálsum félagasamtökum og öðrum hagsmunaaðilum gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við mannréttindaráð SÞ sem annast endurskoðunina með því að skila skýrslu til skrifstofu mannréttindafulltrúa SÞ. Slíkar skýrslur mega að jafnaði ekki vera lengri en 2.815 orð en þó mega þær vera allt að 5.630 orðum ef tvenn eða fleiri samtök kjósa að skila sameiginlegri skýrslu. Skýrslunum má einnig fylgja ítarefni. Frestur frjálsra félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila til þess að skila skýrslu vegna stöðu mannréttindamála á Íslandi er til 24. mars næstkomandi.

Ráðuneytið hefur nú þegar sent fjölda frjálsra félagasamtaka og öðrum hagsmunaaðilum erindi um úttektina en vekur jafnframt athygli á henni hér á heimasíðunni og hvetur frjáls félagasamtök og aðra hagsmunaaðila til að skila skýrslu til SÞ.

Ráðuneytið vill ennfremur upplýsa að við gerð skýrslu Íslands er lögð áhersla á samráð við frjáls félagasamtök og aðra hagsmunaaðila, t.d. með þeim hætti að kynnt verði hverjar verði megin áherslur Íslands við skýrslugerðina, auk þess sem drög að skýrslunni verða kynnt á vefsíðu ráðuneytisins þar sem öllum mun gefast kostur á að gera við hana athugasemdir.

Ef frekari upplýsinga er óskað má hafa samband við Rögnu Bjarnadóttur lögfræðing í síma: 545-9000 eða í netfangið [email protected]

Eftirfarandi tenglar hafa að geyma upplýsingar um UPR-ferlið, fyrstu skýrslu Íslands, skýrslu SÞ sem inniheldur m.a. þær athugasemdir sem gerðar voru við stöðu mannréttindamála á Íslandi, sem og gögn sem gætu komið þeim aðilum að gagni sem hyggjast koma að athugasemdum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira