Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. maí 2016 Félagsmálaráðuneytið

Samningur um lögfræðiráðgjöf við innflytjendur

Að lokinni undirritun samningsins - mynd

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, undirrituðu í gær endurnýjaðan samning um að Mannréttindaskrifstofan annist lögfræðiráðgjöf við innflytjendur þeim að kostnaðarlausu. Mannréttindaskrifstofan hefur sinnt slíkri þjónustu undanfarin ár á grundvelli samnings við velferðarráðuneytið og er samningurinn endurnýjaður í ljósi góðrar reynslu af verkefninu.

Mannréttindaskrifstofa Íslands fær fimm milljónir króna til verkefnisins samkvæmt samningnum og er fénu fyrst og fremst ætlað að standa straum af kostnaði vegna lögfræðiráðgjafar og túlkaþjónustu.

Fengin reynsla sýnir að veruleg þörf er fyrir þessa þjónustu. Á síðasta ári veitti Mannréttindakskrifstofan 528 viðtöl á grundvelli samningsins, ýmist á skrifstofu samtakanna, í gegum síma eða Skype.

Mest er óskað eftir ráðgjöf vegna umsókna um dvalar- og atvinnuleyfi, fjölskylduréttar, einkum vegna skilnaðar- forsjár- og umgengnismála, en ýmis önnur mál koma einnig við sögu, svo sem ráðgjöf og ýmis önnur mál sem varða félagsleg réttindi innflytjenda.

Lögfræðiráðgjöf Mannréttindaskrifstofu Íslands við innflytjendur er veitt í húsnæði skrifstofunnar, Túngötu 14, á þriðjudögum kl. 14-19 og á föstudögum kl. 9-14. Tekið er við tímapöntunum í síma 552-2720 eða í tölvupósti: [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira