Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. júní 2016 Innviðaráðuneytið

Húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra samþykkt á Alþingi

Húsin í bænum
Húsin í bænum

Frumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um almennar íbúðir, húsnæðisbætur og húsaleigulög voru samþykkt á Alþingi í dag. Áður var Alþingi búið að samþykkja frumvarp ráðherrans til laga um húsnæðissamvinnufélög.

Markmið nýrra laga um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með auknu aðgengi að hentugu íbúðarhúsnæði til leigu og að tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Inntak laganna er einnig í samræmi við aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í yfirlýsingu til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði vorið 2015. Lögin fela í sér nýja umgjörð um fjármögnun, rekstur og úthlutun almennra íbúða sem verða að hluta fjármagnaðar með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum.

Lög um húsnæðisbætur hafa það markmið að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta. Lögin eru einnig liður í því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform. Stjórnsýsla og umsýsla með almennum húsnæðisbótum flyst frá sveitarfélögum til ríkisins en sveitarfélögin sjá áfram um greiðslu á sérstökum húsnæðisstuðningi. Húsnæðisbætur samkvæmt lögunum verða greiddar mánaðarlega og grunnfjárhæð bótanna tekur mið af fjölda heimilismanna óháð aldri.

Markmiðið með lögum um breytingu á húsaleigulögum sem samþykkt voru á Alþingi í dag er að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo komast megi hjá ágreiningi. Sett eru fram skýrari fyrirmæli en áður um samskipti leigusala og leigjenda, stuðlað að gerð ótímabundinna leigusamninga og sett eru fram ítarlegri ákvæði en áður um eftirlit ráðherra með starfsemi leigumiðlara. Auk þessa eru í lögunum ákvæði um brunavarnir og ástand leiguhúsnæðis. Staða leigjenda ef til nauðungarsölu er styrkt þar sem leigjanda er gert mögulegt að vera tímabundið áfram í íbúðarhúsnæði eftir nauðungarsölu gegn greiðslu hæfilegrar húsaleigu. Loks má geta þess að til að tryggja betur eftirlit með íslenskum leigumarkaði er með lögunum gerð sú breyting að úrlausnir kærunefndar húsamála í málum sem lúta að gerð og framkvæmd leigusamninga verða bindandi fyrir aðila máls.

Lög um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög voru samþykkt á Alþingi í apríl sl. Markmið þeirra er að að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi, að auka vernd búseturéttarhafa og skýra nánar réttarstöðu þeirra, annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Einnig er markmiðið að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga. Gerð er krafa um nákvæmari ákvæði í samþykktum húsnæðissamvinnufélaga um fjármál þeirra. Þá verður húsnæðissamvinnufélögum óheimilt að kveða á um kaupskyldu á búseturétti í samþykktum sínum og búsetusamningum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira