Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. júní 2016 Innviðaráðuneytið

Ný könnun á félagslegum leiguíbúðum sveitarfélaganna

Reykjavík
Reykjavík

Varasjóður húsnæðismála hefur um árabil kannað ýmsa þætti sem snúa að leiguíbúðum í eigu sveitarfélaganna, s.s. uppbyggingu, framboð, eftirspurn o.fl. Nú liggur fyrir skýrsla með niðurstöðum könnunar fyrir árið 2015. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

Við lok árs 2015 voru leiguíbúðir sveitarfélaganna 4.992 og hafði fjölgað um 55, þ.e. 1,1% frá fyrra ári.

Spurt var um mat sveitarfélaga á framboði leiguhúsnæðis. Hjá 27 sveitarfélögum var talinn skortur eða nokkur skortur á leiguíbúðum, 23 töldu markaðinn vera í jafnvægi og þrjú töldu nokkurt offramboð. Af sex sveitarfélögum sem tilgreindu skort á leiguíbúðum eru fjögur fjölmennustu sveitarfélög landsins. Þrjú sveitarfélög nefndu offramboð. Sveitarfélögum sem telja jafnvægi á leigumarkaðinum hefur fjölgað nokkuð síðust ár.

11 sveitarfélög áforma að fjölga leiguíbúðum á næstunni um samtals 123 íbúðir og eru það áþekk áform um fjölgun og í könnun ársins 2014. Félagsbústaðir hf. í Reykjavík ætla að fjölga um 80 íbúðir, önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla samtals að fjölga íbúðum um 18 og á landsbyggðinni eru fimm sveitarfélög með áform um að fjölga um 25 íbúðir samtals. Þar af eru 10 íbúðir á döfinni á Hornafirði og sjö hjá Akraneskaupstað. Nokkur sveitarfélög hyggjast selja íbúðir á þessu ári, samtals 26 íbúðir.

Um 80% umsækjenda um leiguíbúðir eru á höfuðborgarsvæðinu og um 65% allra umsækjenda sækja um íbúð í Reykjavík. Alls voru um 1690 umsækjendur á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í árslok 2015 sem er svipað og árið áður. Einstaklingar eru fjölmennastir í hópi umsækjenda (949) en næstflestar umsóknir eru frá einstæðum foreldrum (430).

Bið eftir leiguhúsnæði er lengst í Hafnarfirði, 42 mánuðir og þar eru hlutfallslega flestir umsækjendur á biðlista. Næstlengst er biðin í Reykjavík, 38 mánuðir og í Kópavogi er biðtíminn að jafnaði 36 mánuðir. Meðalbiðtími fyrir öll sveitarfélög landsins er 14,6 mánuðir samkvæmt könnuninni.

Húsaleiga var hæst í Reykjavík og því næst í nágrannasveitarfélögum borgarinnar.

Þriggja ára samanburður sýnir að umsóknum um félagslegt húsnæði hefur fækkað og þeim sem eru á biðlistum sömuleiðis á árunum 2013 – 2015 sé litið til landsins í heild.

32 sveitarfélög segjast aðspurð glíma við rekstrarvanda og er það nokkur fjölgun miðað við síðustu ár.

Meiri hluti sveitarfélaga, alls 33 af þeim 54 sem svöruðu spurningum um annars vegar ástand leiguíbúða og hins vegar um viðhaldsþörf þeirra, telur ástand leiguíbúða í sveitarfélaginu ýmist vera gott eða mjög gott. Einungis þrjú sveitarfélög telja ástand þeirra leiguíbúða sem þau eiga vera slæmt. Alls eru 719 íbúðir taldar þarfnast viðhalds, eða um 15% af heildarfjölda leiguíbúða íslenskra sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira