Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. júní 2016 Dómsmálaráðuneytið

Samráð um breytingar á mannanafnalöggjöf

Innanríkisráðuneytið hefur unnið drög að frumvarpi sem felur í sér verulegar breytingar á gildandi lögum um mannanöfn. Drögin eru nú birt á vef ráðuneytisins og er tilgangurinn fyrst og fremst að hvetja til áframhaldandi umræðu um málið. Ráðuneytið óskar nú sem fyrr eftir góðu samstarfi og samráði um hvert stefna beri á þessu sviði. Rökstuddar tillögur og/eða athugasemdir óskast sendar á netfangið [email protected] fyrir 1. ágúst 2016. Ráðuneytið mun taka saman helstu niðurstöður um samráðið og kynna þær.

Umræða um mannanafnalöggjöfina hefur verið áberandi í samfélaginu, m.a. í tengslum við ákvarðanir mannanafnanefndar sem sker úr álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira. Hefur því sjónarmiði vaxið ásmegin að réttur manna til að ráða sjálfir nöfnum sínum og barna sinna sé ríkari en hagsmunir samfélagsins að takmarka þennan rétt. 

Nánasti aðdragandi

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. janúar 2013 var byggt á því að réttur manns til nafns félli undir vernd 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar á friðhelgi einkalífs. Því til stuðnings var vísað til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu sem fellt hefur réttinn til nafns undir 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu en hún er efnislega samhljóða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Af því leiði að réttur til nafns verði aðeins takmarkaður með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Á 143. löggjafarþingi (2013–2014) lögðu fjórtán þingmenn fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um mannanöfn þar sem lagðar voru til róttækar breytingar á núgildandi löggjöf. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu var meginmarkmiðið að undirstrika þá meginreglu um nöfn og nafngiftir að almennt skuli gert ráð fyrir því að nöfn séu leyfð, að foreldrum sé treyst til að velja börnum sínum nafn og að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé virt. Fól frumvarpið í sér að mannanafnanefnd yrði lögð niður og að þær kvaðir sem lög um mannanöfn fela í sér varðandi ættarnöfn yrðu felldar brott. Þá fólst í frumvarpinu að fellt yrði brott ákvæði um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn og jafnframt að fellt yrði brott ákvæði um að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Í frumvarpinu var einnig kveðið á um að ákvæði þess efnis að nafn megi ekki vera nafnbera til ama verði fellt brott. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að nafn einstaklings sé nátengt sjálfsmynd og sjálfsvitund fólks og að hagsmunir einstaklinga af því að fá að heita nafni sínu séu ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að fólk fái ekki að heita ákveðnu nafni.

Frumvarpið fór til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Nefndin lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að breyta gildandi lögum um mannanöfn. Skoðun nefndarmanna var að við heildarendurskoðun laganna skyldi hafa að leiðarljósi rétt hvers manns til nafns sem njóti verndar skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og að sá réttur verði aðeins takmarkaður með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Varð það niðurstaða allsherjar- og menntamálanefndar að leggja til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Fyrra samráð og skoðanakönnun árið 2015

Innanríkisráðuneytið hafði þá þegar hafið undirbúning að endurskoðun mannanafnalaga. Árið 2015 opnaði ráðuneytið á vef sínum fyrir samráð við almenning um hvort endurskoða ætti mannanafnalög og um hugsanlegar breytingar á þeim. Í framhaldinu hóf ráðuneytið samstarf við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem gerði skoðanakönnun um málið. Niðurstaðan var sú að meirihluti þátttakenda vildi að gildandi reglur um mannanöfn yrðu rýmkaðar.

Frumvarpsdrög

Ráðuneytið hefur unnið drög að frumvarpi sem felur í sér verulegar breytingar á gildandi lögum. Um er að ræða róttæka nálgun á viðfangsefnið en margar aðrar leiðir koma einnig til greina. Tilgangurinn með því að birta þessi drög á vef ráðuneytisins er fyrst og fremst að hvetja til áframhaldandi umræðu um hvert stefna skuli. Sjónarmið og ábendingar sem fram koma verða nýttar við endanlega útfærslu á frumvarpi um breytingar á gildandi lögum.

Frumvarpsdrögin fela í sér að gildandi lög um mannanöfn verði felld á brott en í lög um þjóðskrá og almannaskráningu verði færð tiltekin ákvæði um nöfn og skráningu þeirra í þjóðskrá. Á brott myndu meðal annars falla eftirtalin atriði:

  • Ákvæði um hámarksfjölda nafna.

  • Ákvæði um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Einu kröfurnar sem gerðar yrðu til eiginnafna væru að þau skyldu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis. Væri eiginnafn af íslenskum uppruna skyldi það falla að íslensku beygingarkerfi en sú krafa væri ekki gerð ef um viðurkennt erlent nafn væri að ræða.

  • Ákvæði um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn.

  • Ákvæði um að eiginnöfn megi ekki vera þannig að þau geti orðið nafnbera til ama.

  • Ákvæði um ættarnöfn, engar takmarkanir yrðu á notkun ættarnafna og því félli bæði á brott vernd eldri ættarnafna og bann við nýjum.

  • Ákvæði um takmarkanir á notkun erlendra nafna en kveðið yrði á um að nöfn skuli rita í þjóðskrá með bókstöfum íslenska stafrófsins.

  • Ákvæði um mannanafnanefnd og hlutverk hennar, sem og ákvæði um mannanafnaskrá.

Ráðuneytið óskar nú sem fyrr eftir góðu samstarfi og samráði um hvert stefna beri á þessu sviði. Rökstuddar tillögur og/eða athugasemdir óskast sendar á netfangið [email protected] fyrir 1. ágúst 2016. Ráðuneytið mun taka saman helstu niðurstöður um samráðið og kynna þær.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum