Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. júní 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2015

Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2015 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Helstu niðurstöður eru að tekjujöfnuður ársins var jákvæður um 20,0 ma.kr. sem er í samræmi við áætlanir. Til samanburðar var tekjujöfnuður ársins 2014 jákvæður um 46,4 ma.kr.

Tekjurnar árið 2015 voru nokkuð umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Það skýrist af arðgreiðslum fjármálafyrirtækja og styrkari skattstofnum vegna aukinna umsvifa í þjóðfélaginu og var tekið tillit til þessarar aukningar í fjáraukalögum. Gjöldin voru nokkuð umfram heimildir fjárlaga en auknar heimildir voru samþykktar með fjáraukalögum ársins til að mæta m.a. auknum útgjöldum vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna og gerðardóms, fjármagnskattgreiðslum ríkissjóðs og öðrum þáttum.

Frumjöfnuður ársins var jákvæður  um 3,8% af landsframleiðslu á árinu á móti 5,3% árið 2014.

Á árinu 2015 var ríkissjóður með hreinan lánsfjárafgang sem nam um 1,9% af landsframleiðslu, samanborið við 3,9% lánsfjárafgang árið áður.  Þetta er svipuð niðurstaða og gert hafði verið ráð fyrir. Í fjárlögum var hreinn lánsfjárafgangur áætlaður 1,1% af vergri landsframleiðslu en 1,9% með breytingu í fjáraukalögum.

Öflugur hagvöxtur stutt við kaupmáttaraukningu

„Stöðugleiki í efnahagsumhverfinu, öflugur hagvöxtur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa á undanförnum misserum stutt mjög við kaupmáttaraukningu almennings og bætt afkomu ríkissjóðs. Í samræmi við ábyrga stjórn ríkisfjármála var stefnt að jákvæðum heildarjöfnuði ríkissjóðs á árinu 2015 og endurspeglaði sú stefna að tekist hafði með markvissum aðgerðum að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings. Sjálfvirk skuldasöfnun ríkissjóðs hafi verið stöðvuð árið áður, en fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014 var fyrsta hallalausa frumvarpið frá árinu 2007.

Ráðherra segir mikilvægt að vinna áfram að niðurgreiðslu skulda og þar með lægri vaxtabyrði ríkissjóðs sem skapi svigrúm til að takast á við ýmis aðkallandi verkefni og skuldbindingar. „Slíkt skilar íslensku samfélagi miklum ábata þegar fram í sækir. Verkefnið fram undan er að tryggja áframhaldandi árangur í ríkisfjármálum,“ segir Bjarni. Fjármálastefna og fjármálaáætlun til fimm ára, sem lagðar voru fyrir Alþingi í vor í samræmi við ný lög um opinber fjármál eigi að byggja undir jafnvægi í efnahagslífi og stöðugleika fyrir fyrirtæki og heimili sem og hið opinbera.  „Þannig skapast svigrúm til umbóta og úrbóta í þjónustu fyrir almenning og styrkari stoðum er skotið undir efnahagsbatann og batnandi lífskjör fólksins í landinu.“

Staðfestur með rafrænum undirritunum

Fjármála- og efnahagsráðherra, fjársýslustjóri og ríkisendurskoðandi staðfestu ríkisreikning með rafrænum undirritunum og nýttu til þess rafræn skilríki, en þetta er í þriðja sinn sem reikningurinn er undirritaður með þessum hætti. Ísland er í hópi fyrstu ríkja til þess að staðfesta ríkisreikning með þessum hætti.

Reikninginn í heild sinni með þeim sundurliðunum og skýringum sem honum fylgja má finna á vef Fjársýslunnar, fjs.is

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira