Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. september 2016 Innviðaráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Skipulagsdeginum 2016

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við setningu Skipulagsdags 2016 á Grand hóteli.

 

Ágætu fundargestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þennan góða hóp sem hér er mættur á Skipulagsdaginn 2016 sem Skipulagsstofnun stendur fyrir í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Þema dagsins er Gæði byggðar og umhverfis með sérstaka áherslu á hvernig beita megi skipulagi til að tryggja gæði í byggðu umhverfi með sérstaka áherslu á skipulag og ferðamál.

Við upplifum nú betri tíð og aukin hagsæld hefur fært okkur jákvæð efnahagsleg áhrif. Byggingariðnaðurinn er kominn á fullt og skógur byggingarkrana hefur þést á ný, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir alla þessa byggingastarfsemi svarar hún ekki eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði nema að takmörkuðu leyti. Af þeim rúmlega 2000 íbúðum sem þörf er að byggja á höfuðborgarsvæðinu árlega voru aðeins byggðar um 1200 íbúðir 2015. Það er því veruleg þörf á að auka byggingu íbúðarhúsnæðis samhliða því að hugað sé að þörf um gistirými.

En „vel skal vanda sem lengi skal standa“ .

Fyrir tveimur vikum síðan hófst áhugaverð þáttaröð í ríkissjónvarpinu sem kölluð er steinsteypuöldin. Þar er rakin saga byggingarlistar og borgarskipulags í Reykjavík á tuttugustu öld. Þáttaröðin hófst á stórbrunanum 1915 þar sem eyddust fjölmörg timburhús í bænum. Afleiðing þessa voru breyttar kröfur um brunavarnir húsbygginga og með þeim hófst tími steinsteypuhúsanna. Ísland var á leið til sjálfstæðis og ráðamenn voru stórhuga og sáu þörfina á að vanda til verka bæði hvað varðar skipulag bæja og byggingu mannvirkja.

Skömmu síðar kom út rit Guðmundar Hannessonar læknis Um skipulag bæja þar sem hann vakti athygli á samspili umhverfis og lýðheilsu og að leggja þyrfti áherslu á hreinlæti, fagurfræði, loft og ljós í skipulagi byggða. Það er merkilegt að læknaprófessor skuli vera sá fyrsti til að gefa út rit um skipulagsmál.

Hugmyndir Guðmundar áttu rætur að rekja til þeirrar gerjunar sem átti sér stað í heilbrigðis- og skipulagsmálum víða um lönd sem var viðbragð við slæmum búsetuskilyrðum almennings og heilsuspillandi borgarumhverfi sem skapast hafði í kjölfar iðnbyltingarinnar. Nokkur af okkar bestu hverfum í Reykjavík eru byggð undir áhrifum þessara hugmynda Guðmundar eins og t.d. verkamannabústaðirnir við Hringbraut. Auk þess lögðu skrif hans grunn að fyrstu löggjöfinni um skipulagsmál sem sett voru árið 1921 hér á landi.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en þó eiga áherslur Guðmundar um gæði og fagurfræði í byggðu umhverfi ekki síður við nú en þá. Nú á tímum er aftur rætt um samspil skipulags og lýðheilsu þó heilbrigðisvandamálin séu önnur nú en í upphafi 20. aldarinnar.

Nú eru það lífsstílsvandamál og loftslagsbreytingar sem kalla á að betur sé vandað til skipulags byggðar og að lögð sé áhersla á að skipulag byggðar stuðli að aukinni lýðheilsu og aðgengi almennings að landi og heilnæmum matvælum. 

Sem dæmi má nefna að í heftinu Skipulagsmál á Íslandi 2014 sem er hluti af gögnum sem tengjast landsskipulagsstefnu, kemur m.a. fram á þá leið að 19,3% kvenna og 22,7% karla á Íslandi þurfa að huga betur að heilbirgði og þyngd.

Það leiðir okkur að Landsskipulagsstefnu 2015-2016 sem ég lagði fram á Alþingi síðastliðinn vetur og samþykkt var 16. mars á þessu ári. Í landskipulagsstefnu er í fyrsta sinn sett fram stefna stjórnvalda um skipulagsmál, þar á meðal um byggðamynstur, en þar er dregið fram að að útfærsla gatnakerfis og samgangna, þéttleiki og blöndun byggðar hefur áhrif á ferðamáta.

Í einum af markmiðum landsskipulagsstefnunnar varðandi Gæði hins byggða umhverfis segir:„Skipulag byggðar og bæjarhönnun stuðli að gæðum í hinu byggða umhverfi og að yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmynd viðkomandi staðar og sögulegri byggð. Jafnframt verði stuðlað að heilnæmu umhverfi sem veiti góð skilyrði til búsetu og möguleika til fjölbreyttrar útiveru.“ Þessi hugsun gæti alveg eins verið komin frá Guðmundi Hannessyni.

Þema Skipulagsdagsins í ár er Gæði byggðar með sérstaka áherslu á uppbyggingu í ferðaþjónustu. Í landsskipulagsstefnunni er einnig mörkuð stefna um það viðfangsefni. Leiðarstefið þar er að ferðaþjónusta sé í „sátt við náttúru og umhverfi“ og að uppbygging stuðli að góðri aðstöðu fyrir ferðafólk samhliða því að varðveita þau gæði sem felast í náttúrunni, óbyggðunum og í byggðu umhverfi, sem er undirstaða ferðaþjónustunnar.

Ferðamenn sem hingað koma eru bæði að heimsækja land og þjóð. Það þarf því að gæta vel að því að uppbygging sem nú á sér stað nýtist ekki síður íbúum en ferðamönnum og leggja áherslu á að henni sé ætlað að efla atvinnu og samfélag á staðnum…og gæði hins byggða umhverfis.

Með landsskipulagsstefnunni er jafnframt í fyrsta sinn sett fram stefna stjórnvalda um skipulag á hafsvæðum með það að markmiði að veita grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu um leið og viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland.

Kallað hefur verið eftir slíku skipulagi til að takast á við hagsmunaárekstra um nýtingu á einstaka haf- og strandsvæðum og til að stuðla að sjálfbærri nýtingu. Samskonar þróun á sér stað í löndunum í kringum okkur bæði vestan hafs og austan.

Starfshópur sem ég skipaði hefur unnið að lagafrumvarpi um skipulag á haf- og standsvæðum á undanförnum misserum og gerir ráð fyrir að skila drögum til mín nú í haust. Samkvæmt drögunum er gert ráð fyrir að í landsskipulagsstefnu verði sett almenn stefna um haf- og strandsvæði og að þar verði tekin ákvörðun um fyrir hvaða svæði skuli vinna nákvæmara skipulag. Þá er gert ráð fyrir að gerð svæðisskipulags verði sameiginlegt verkefni fulltrúa ríkis og sveitarfélaga.

Vonir mínar standa til þess að frumvarpið verði lagt fram á nýju löggjafarþingi að afloknum alþingiskosningum. Skipulag á haf- og strandsvæðum mun líkt og á landi, geta nýst sem verkfæri til að styðja við ferðaþjónustu og stuðla að gæðum umhverfis.

Góðir gestir,

Skipulagsmál hafa ávallt verið mér hugleikin. Í mínu fyrra pólitíska lífi voru þau stór þáttur í starfinu. Samspil bygginga og náttúru eða aðlögun byggðar að umhverfinu. Einnig naut ég þess að vinna í dómnefndum t.d. arðandi skólabyggingar og skólalóðir.  Fyrir um aldarfjóðungi var haldin samkeppni um framtíð Viðeyjar, það var mjög fróðlegt og lærdómsríkt að koma að þeim dómstörfum, ekki síst sökum fjölbreytileika tillagnanna. Allt þetta opnaði sýn um mikilvægi hönnunar og skipulags. 

Að lokum langar mig að nefna Græna trefilinn, en það er skógræktar og útivistarsvæði sem umlykur útmörk sjö sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu. Helstu markmið eru að auka lífsgæði og bæta lýðheilsu. Hliðstætt og Guðmundur Hannesson vann að fyrir öld síðan.  Græni trefillinn er jafnframt gott dæmi um farsælt verkefni þar sem sveitarfélög og frjáls félagasamtök tóku saman höndum um að bæta umhverfið.

Gaman að segja frá því hér að ég fór sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga á byggðaráðstefnu í Istanbul, Habitat II, og kynnti þar hugmyndir að Græna treflinum – fyrir um 20 árum síðan.

Kæru fundargestir,

Ég vona að Skipulagsdagurinn 2016 verði bæði ánægjulegur og árangursríkur.

Góðar stundir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira