Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Stuðlað að því að mannréttindasjónarmiða gæti við stefnumótun og lagasetningu

Með bréfi 28. maí 2015 til forseta Alþingis tilkynnti Ólöf Nordal innanríkisráðherra um þá fyrirætlun sína að leggja fyrir Alþingi skýrslu um mannréttindi og um aukna samvinnu ráðuneytisins og Alþingis til að tryggja bætta upplýsingagjöf til þingsins um málefnasviðið. Mannréttindasjónarmiða gætir með margvíslegum hætti í flestum verkefnum hins opinbera, líkt og sjónarmiða um jafnrétti, og eru mannréttindi án vafa eitt af stærstu viðfangsefnum nútímans.

Í heimi sífelldra breytinga, framfara, siðvæðingar, tækniþróunar og því miður einnig stríðsátaka og hryðjuverkaógna hefur aldrei verið mikilvægara en nú að Ísland standi traustan vörð um réttindi einstaklinga. Fjölmenningarsamfélaginu með hinum jákvæðu og efnahagslegu framförum hefur því miður einnig fylgt hætta á aukinni öfgahyggju og þar með hættu á því að mannréttindum sé kastað fyrir róða í þágu skammtímahagsmuna og ótta við breytingar.

Af þessu leiðir að nauðsynlegt er að hlúa vel að umræðu um mannréttindi í sem víðustum skilningi og gegnir Alþingi afar mikilvægu hlutverki í því sambandi.

Markmið skýrslunnar

Markmið skýrslunnar er að stuðla að því að mannréttindasjónarmiða gæti við stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku stjórnvalda og efla þannig mannréttindavernd. Vonir standa til að skýrslan geti orðið grundvöllur að stefnumörkun á sviði mannréttinda, gerð landsáætlunar og eftirfylgni með slíkri áætlun. Þannig gæti hún orðið liður í því að efla aðkomu þingsins og að samhæfa stjórnsýslu í málum sem varða mannréttindi en það væri vel til þess fallið að auka skilvirkni við umsjón og eftirfylgni með mannréttindaskuldbindingum Íslands.

Brýnt er að stuðla að virkri þverpólitískri samstöðu um aukið vægi mannréttinda í starfi stjórnsýslunnar, innanlands sem utan, og tryggja þannig að stöðugleika gæti í málaflokknum, óháð óhjákvæmilegum breytingum á sviði stjórnmála.

Alþingi hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna til þess að svo megi verða.

Uppbygging skýrslunnar

Uppbygging skýrslunnar er með þeim hætti að í inngangi er markmiðum hennar lýst, þá kemur umfjöllun um mannréttindi á alþjóðavísu og helstu mannréttindasamninga sem Ísland hefur fullgilt á vettvangi SÞ og Evrópuráðsins. Í þriðja kafla er umfjöllun um mannréttindi á Íslandi, löggjöfina, fyrst og fremst stjórnarskrána, og því næst um framkvæmd mannréttindamála og aðkomu löggjafans, framkvæmdavaldsins, dómstóla, umboðsmanns Alþingis, umboðsmanns barna, sveitarfélaga og loks borgarasamfélagsins, sem og um gerð landsáætlunar í mannréttindamálum.

Í fjórða kafla skýrslunnar er fjallað um mögulegar umbætur og helstu áskoranir. Þar er m.a. fjallað um mögulegt hlutverk Alþingis og bætta upplýsingagjöf til þess, t.d. um

  • dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum sem varða Ísland,
  • athugasemdir sérfræðinganefnda vegna fyrirtöku samninga um kerfislæga þætti sem hafa orðið tilefni ítrekaðra athugasemda sérfræðinganefnda.

Þá er að finna tillögur um mögulegar úrbætur innan stjórnarráðsins, svo sem um:

  • að flytja fyrirsvar gagnvart Mannréttindadómstól Evrópu til ríkislögmanns,
  • samræmt verklag við að svara spurningum og rita skýrslur vegna alþjóðlegs eftirlits,
  • aukið samráð og skilvirkni, m.a. með stofnun mannréttindateymis stjórnarráðsins,
  • aukið samráð og umræðu út fyrir stjórnarráðið með þátttöku frjálsra félagasamtaka og borgarasamfélagsins.

Að lokum er fjallað um helstu áskoranir en þar er vikið að umræðu um öryggismál og tengslum hennar við mannréttindi, öfgahyggju, og fleira. Fram kemur að stjórnvöld þurfi að móta stefnu í þessum málum og tekið fram að með því að draga fram þessi atriði í skýrslunni sé ætlunin að Alþingi geti rætt samspil öryggis og mannréttinda auk almennrar umræðu í þjóðfélaginu.

Hvers er vænst

Þó að skammt sé eftir af störfum þingsins er engu að síður mikilvægt, að mati innanríkisáðherra, að leggja skýrsluna fram nú eins og boðað var í bréfi ráðherra til forseta Alþingis í maí 2015.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira