Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. október 2016 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Lágmarksbætur einstæðra ellilífeyrisþega verða 300.000 krónur og frítekjumarki komið á

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi síðdegis í dag að gera tillögu til velferðarnefndar Alþingis um breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra sem fela í sér ákveðnar kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja. Áætlaður kostnaður vegna breytinganna nemur 4,5 milljörðum króna. Á fundi ríkisstjórnarinnar var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing:

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands vegna frumvarps um almannatryggingar

Fyrir Alþingi liggur frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra. Frumvarpið er afrakstur viðamikils samráðs við hagsmunaðila og felur í sér róttækustu breytingar á almannatryggingum í áratugi, m.a. breytt bótakerfi almannatrygginga, sveigjanleg starfslok og hækkun lífeyristökualdurs. Í umræðu um frumvarpið hafa komið fram gagnlegar ábendingar um stöðu eldri borgara og ýmis atriði sem betur mættu fara í frumvarpinu. 

Ríkisstjórnin fundaði í dag um þær ábendingar sem komið hafa fram um frumvarpið. Skoðuð hafa verið áhrif aukinna framlaga til almannatrygginga á stöðu ríkisfjármála til skemmri og lengri tíma. Að lokinni þeirri athugun telur ríkisstjórnin, í ljósi ábyrgrar efnahagsstjórnunar og þess mikla árangurs sem náðst hefur á kjörtímabilinu í ríkisfjármálum, að unnt sé að stíga veigamikil skref til bættra kjara aldraðra og öryrkja. Byggist það á sterkri stöðu þjóðarbúsins og jákvæðum framtíðarhorfum. 

Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja til við velferðarnefnd Alþings að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu: 

 • Eldri borgurum sem halda einir heimili verði tryggðar 300 þúsund krónur á mánuði frá 1. janúar 2018, enda hafi þeir ekki aðrar tekjur sem hafa áhrif á fjárhæð bótanna. Bæturnar hækki í 280 þúsund krónur um næstu áramót. Seinna á árinu 2018 mun kauptrygging á vinnumarkaði einnig ná 300 þúsund krónum samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. 
 • Framfærsluviðmið öryrkja verði jafnframt 300 þúsund krónur á mánuði frá sama tíma. 
 • Frítekjumark verði sett á allar tekjur eldri borgara, hvort heldur sem er lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Frítekjumarkið, sem undanþegið er við útreikning bóta, verði 25 þúsund krónur. Þessi breyting samsvarar 25 þúsund króna aukningu ráðstöfunartekna hjá stærstum hluta eldri borgara umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. 
 • Hækkun lífeyristökualdurs verði hraðað um 12 ár. Hækkun lágmarkslífeyristökualdurs úr 67 árum í 70 ár eigi sér þannig stað á 12 árum en ekki 24 árum eins og áður var ráðgert. 

Þessar breytingar leiða til mikillar hækkunar á bótum almannatrygginga á næstu tveimur árum. Til dæmis munu bætur eldri borgara sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur hækka úr 247 þúsund krónum árið 2016 í 300 þúsund krónur árið 2018, eða um 22%. Bætur eldri borgara með 150 þúsund króna lífeyristekjur munu hækka úr 142 þúsund krónum árið 2016 í 229 þúsund árið 2018, eða um 61%. 

Árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga er áætlaður um 4,5 milljarðar króna sem bætist við þær 5,0 til 5,5 milljarða króna sem voru áætluð kostnaðaráhrif frumvarps um almannatryggingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira