Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. október 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breyttar áherslur í opinberum innkaupum skila sparnaði

Sameiginleg innkaup á tölvum og tölvuskjám skiluðu sparnaði. - mynd
  • Aukin skilvirkni í innkaupum
  •  Aukin áhersla á sameiginleg innkaup
  • Umsýsluþóknun rammasamninga afnumin fyrir seljendur
  •  Öll útboð auglýst á einum stað – utbodsvefur.is
  • Þátttaka í útboðum einfaldari - rafrænt útboðsferli
  •  Heildstætt regluverk fyrir ríki og sveitarfélög
  • Aukinn sparnaður – betri nýting skattfjár

 Ný heildarlög um opinber innkaup hafa verið samþykkt á Alþingi, sem auka skilvirkni í innkaupum og styðja við stefnumörkun um aukin sameiginleg innkaup stofnana. Tilraunaverkefni hafa gefið góða raun og skilað yfir 100 milljón króna lágmarksávinningi. Árlega ver ríkið um 88 milljörðum króna í kaup á vörum og þjónustu og með hagkvæmum innkaupum er ætlað að spara megi allt að 2-4 milljarða króna á ári.

Nýju lögin auka möguleika innlendra aðila til að standa sameiginlega að innkaupum með erlendum aðilum, t.a.m. vegna innkaupa á lyfjum og sérhæfðum búnaði. Þetta getur haft í för með sér verulegt hagræði en alls kaupir ríkið heilbrigðisvörur og lyf fyrir um 16 milljarða króna á ári.  Þá er tækifæri til að ná fram hagræðingu við innkaup á sviði upplýsingatækni, en árleg innkaup vegna upplýsingatækni nema um 6 milljörðum króna. Fjármála- og efnahagsráðuneytið lét nýlega gera úttekt á hugbúnaðarleyfakostnaði ríkisins, sem leiddi í ljós að ná megi fram allt að 140-190 milljón króna árlegum sparnaði með sameiginlegum innkaupum á hugbúnaðarleyfum.

Í vor tóku um 55 ríkisstofnanir þátt í örútboðum innan rammasamninga á tölvum, tölvuskjám og pappír og var lágmarksávinningur af útboðunum yfir 100 milljónir króna. Í sameiginlegum innkaupum eru stofnanir ríkisins ekki aðeins að fá lægra verð heldur einnig oft og tíðum mun betri vöru en áður.

Sameiginleg innkaup á tölvum og tölvuskjám skiluðu sparnaði. 

Sameiginleg innkaup á tölvum og tölvuskjám skiluðu sparnaði.

Breyttar áherslur í starfsemi Ríkiskaupa

Ríkiskaup verða í fyrirsvari í sameiginlegum innkaupum. Stofnunin mun hafa forgöngu um að skilgreina vöru og þjónustu sem kaupa á inn sameiginlega og sjá um að bjóða innkaupin út fyrir hönd kaupenda. Frá áramótum er fyrirhugað að  Ríkiskaup hætti að innheimta þóknun hjá seljendum af veltu rammasamninga en þess í stað fær stofnunin fast framlag af fjárlögum og þjónustutekjur frá kaupendum. Stofnunin verður með þessu virkari þátttakandi í innkaupum með ríkisstofnunum, gagnsæi eykst  og afsláttur í rammasamningum skilar sér beint til kaupenda. Áður höfðu seljendur greitt allt að 2% þóknun af heildarfjárhæð viðskipta til Ríkiskaupa.

Öll innkaup auglýst á einum stað

Umfangsmiklar breytingar fylgja nýjum lögum um opinber innkaup. Nefna má að öllum opinberum kaupendum ber framvegis að auglýsa innkaup sín á sameiginlegum vettvangi  (utbodsvefur.is) þar sem hægt verður að nálgast öll útboð sem falla undir lögin á einum og sama stað.  Með því að tryggja fyrirtækjum aðgang að miðlægum vettvangi fyrir útboðsauglýsingar er stuðlað að auknu jafnræði og gagnsæi við innkaup. Samhliða verða innleiddar auknar skyldur um rafræn samskipti við opinber innkaup, hvað snertir aðgengi að útboðsgögnum og rafræn skil á tilboðum í innkaupaferli, auk þess sem umsýsla vegna innkaupa minnkar. Þannig munu fyrirtæki ekki þurfa að leggja fram fjölda gagna og skjala í upphafi hvers innkaupaferlis til sönnunar á hæfi.

Nýju lögin hafa einnig í för með sér að sömu reglur munu gilda um innkaup ríkis og sveitarfélaga og stofnanir á þeirra vegum. Sveitarfélögum verður skylt að bjóða út innkaup á vöru og þjónustu yfir 15,5 m.kr. og verkum yfir 49 m.kr. Sveitarfélögin hafa þriggja ára aðlögunartíma þar til almenn útboðsskylda tekur gildi gagnvart þeim.

Gert er ráð fyrir að breytingarnar með nýjum lögum og aðferðum við innkaup leiði til betri nýtingar skattfjár, auki hagkvæmni og gagnsæi í opinberum innkaupum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira