Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. janúar 2017 Félagsmálaráðuneytið

Samningar við Reykjavík og Akureyri um móttöku flóttafólks

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, undirritaði í dag samninga við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Reykjavík og Eirík Björn Björgvinsson, bæjarstjóra á Akureyri, um mótttöku sex sýrlenskra flóttafjölskyldna sem væntanlegar eru til landsins eftir helgi. Fimm þeirra setjast að í Reykjavík og ein á Akureyri.

Samningarnir eru sambærilegir þeim sem nýlega voru undirritaðir við forsvarsmenn sveitarfélaganna Hveragerðis og Árborgar sem einnig taka á móti fjölskyldum úr þeim 47 manna hópi sýrslenskra flóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið til landsins. Undirbúningur að móttöku fólksins hefur staðið yfir um nokkurt skeið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) og fór sendinefnd til Líbanons í nóvember síðstliðnum, meðal annars til að veita fólkinu fræðslu um Ísland og íslenskt samfélag.

Samningar ráðuneytisins og sveitarfélaganna um móttökuverkefnið lýtur að aðstoð og stuðningi við fólkið á næstu tveimur árum. Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við flóttafólk er staða flóttafólks og réttindi þeirra skilgreind, fjallað um inntak þeirrar aðstoðar sem flóttafólk skal njóta fyrst eftir komu sína til landsins og gerð grein fyrir kostnaðarskiptingu vegna þess milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Í grófum dráttum snúa þessi verkefni að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Rauði krossinn kemur að móttöku flóttafólksins í hverju sveitarfélagi þar sem hann útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þeirra og hefur jafnframt umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun að íslensku samfélagi. Velferðarráðuneytið og Rauði krossinn gerðu nýlega með sér samning um framkvæmd þessara verkefna. Í þeim samningi fólust jafnframt mikilvæg tímamót þar sem með honum er stigið skref í átt að því að jafna þjónustu við flóttafólk, hvort sem það kemur í boði stjórnvalda (kvótaflóttafólk) eða á eigin vegum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira