Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. febrúar 2017 Félagsmálaráðuneytið

Greining á þjónustu við flóttafólk

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands kynnti í gær skýrslu með niðurstöðum rannsóknar sem lýtur að högum flóttafólks á Íslandi með greiningu á þjónustu sem því er veitt og tilögum að úrbótum varðandi stjórnsýslu málefna útlendinga og innflytjenda hér á landi. Skýrslan var gerð að beiðni velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins.

Kveikjan að rannsókninni var skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom út í mars 2015 þar sem bent var á ýmis atriði sem stofnunin telur að þarfnist endurskoðunar til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og almennt skipulag þegar kemur að málefnum flóttafólks og innflytjenda hér á landi.

Skýrslan er þríætt. Í fyrsta kafla er fjallað um niðurstöður spurningakönnunar sem gerð var meðal flóttafólks sem fékk dvalarleyfi á Íslandi á árunum 2004 – 2015, jafnt meðal þeirra sem komið hafa hingað sem kvótaflóttafólk eða á eigin vegum. Í öðrum kafla eru greindar skoðanir starfsfólks sveitarfélaga og Rauða krossins á aðlögun flóttafólks. Byggist sá hluti á viðtölum sem gerð voru við átta einstaklinga sem starfa við aðlögun flóttafólks að jafnaði, auk þess sem samanburður er gerður á þeirri þjónustu sem er í boði fyrir flóttafólk á Íslandi miðað við Svíþjóð, Noreg og Danmörku. Í þriðja kaflanum er loks gerð greining á lagalegri og stjórnsýslulegri aðgreiningu málefna útlendinga og innflytjenda og settar fram tillögur að úrbótum í því skyni að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Eins og fram kemur í skýrslunni var svarhlutfall í könnunarhluta rannsóknarinnar mjög lágt. Í þýðinu voru 255 einstaklingar 18 ára og eldri, en svarhlutfallið var einungis 15%, þrátt fyrir fjölbreyttar aðferðir til gagnaöflunar. Skýrsluhöfundar benda því á að eingöngu skuli nota niðurstöðurnar sem vísbendingu en forðast að alhæfa um flóttafólk í heild út frá þeim.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, flutti ávarp við opnun málþings í Norræna húsinu þar sem skýrslan var kynnt. Í máli hans kom m.a. fram að á næstunni verði skipaður starfshópur til að setja fram tillögur um móttöku og þjónustu við flóttafólk sem kemur hingað til lands á eigin vegum. Verulegur munur hefur verið á þjónustu við kvótaflóttafólk og þá sem koma hingað á eigin vegum og segir ráðherra alveg ljóst að jafna þurfi þann mun. Niðurstöður rannsóknarinnar renni stoðum undir þá skoðun. Ráðherra sagði mikilvægt að vera komin með þessa skýrslu í hendur og þótt könnunarhluti hennar gæfi ekki kost á alhæfingum gæfu niðurstöðurnar engu að síður vísbendingar sem hægt væri að vinna með við stefnumótun og úrbætur í málefnum flóttafólks.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira