Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. mars 2017 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Réttur nemenda tilkennslu í list- og verkgreinum ekki nægilega virtur

Könnun leiðir í ljós að misbrestur er á því að nemendur fái lögbundinn kennslustundafjölda í list- og verkgreinum sem þeim ber samkvæmt lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011.

Hagstofa Íslands hefur að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis aflað upplýsinga frá grunnskólum um kennslustundafjölda í list- og verkgreinum. Ráðuneytið hefur unnið úr upplýsingunum fyrir skólaárin 2013-2014, 2014-2015 og 2015-2016 til þess að athuga hvort nemendur fái lögbundinn kennslustundafjölda í list- og verkgreinum sem þeim ber samkvæmt lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011.

Í viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 er viðmiðunarstundum í námsgreinum og námssviðum skipt í þrjú tímabil eða 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8. - 10. bekk. Til þess að kanna hvort skólar kenna tilskilinn lágmarksfjölda kennslustunda í hverri námsgrein þarf því að skoða heildarfjölda í greininni yfir þessi fjögurra eða þriggja ára tímabil.

Í aðalnámskrá grunnskóla er birt viðmiðunarstundaskrá fyrir helstu námssvið. Undir listgreinar heyra tónmennt, myndmennt og sviðslistir, en undir verkgreinar heyra hönnun, smíði, textílmennt og heimilisfræði. Ekki er gerður greinarmunur á list- og verkgreinum í viðmiðunarstundaskrá og aðeins tilgreint hversu margar kennslumínútur nemendur eiga að fá fyrir allar námsgreinarnar til samans. Skólum er í sjálfsvald sett að dreifa mínútunum innan tímabilsins en að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að tíminn dreifist jafnt milli árganga samkvæmt faglegum sjónarmiðum. Í 1. – 4. bekk eiga nemendur að fá samtals 900 mínútur á viku, í 5. – 7. bekk eiga að vera 840 kennslumínútur og í 8. – 10. bekk eiga að vera 340 kennslumínútur. Tími sem er ætlaður fyrir valgreinar er tilgreindur sérstaklega og eiga nemendur í 1. – 4. bekk að fá samtals 300 mínútur á viku í valgreinar, í 5. – 7. bekk 160 kennslumínútur og í 8. – 10. bekk skal verja 1330 kennslumínútum í valgreinar.

Skólar skila inn skýrslu til Hagstofu Íslands um hvernig kennslumínútum er ráðstafað milli námssviða og árganga. Þeir útreikningar sem hér birtast byggja á skýrslum fyrir þrjú skólaár, 2013-2014, 2014-2015 og 2015-2016. Þess var gætt að undanskilja þá skóla sem ekki kenna í viðkomandi árgöngum.

Niðurstöður eru þær að meðaltal kennslumínútna á viku í 1. – 4. bekk er 852 mínútur, reiknað saman fyrir öll þrjú skólaárin, sem er 48 mínútum undir lágmarksviðmiði aðalnámskrár. Í 5. – 7. bekk er meðaltalið 678 mínútur sem eru 162 mínútum undir viðmiði og í 8. – 10. bekk er meðaltalið 235 mínútur sem eru 105 mínútum undir lágmarksviðmiði.

Myndin að neðan sýnir hvernig meðaltalið fyrir alla skóla landsins dreifist yfir þriggja ára tímabil. Myndin sýnir skiptingu milli ára fyrir meðaltal kennslumínútna. Rauða brotna línan sýnir hvar viðmið um lágmarkskennslumínútur lendir á lóðrétta ásnum.

 

Frávik frá fjölda kennslustunda

 

Skólaárið 2015-2016 var 71 skóli af 153 undir lágmarksviðmiðum fyrir 1. – 4. bekk eða 46% skóla. Í 5. – 7. bekk voru 111 af 148 skólum undir viðmiði sem er 75% skóla. Í 8. – 10. bekk voru 94 skólar af 135 undir lágmarksviðmiði sem er um 70% skóla en af þeim voru 39 skólar sem skráðu ekki neinar kennslumínútur á list- og verkgreinar.

Skólar sem ná ekki lágmarksviðmiðum í list- og verkgreinum er að finna alls staðar á landinu. Í Reykjavík voru 15 af 38 skólum undir viðmiðunarstundaskrá skólaárið 2015-2016 í 1. – 4. bekk, eða 39% skóla. Í 5. – 7. bekk voru 29 af 36 skólum undir lágmarksviðmiði eða 80% skóla og í 8. – 10. bekk voru 23 af 29 skólum undir lágmarksviðmiði eða 79% af skólum í Reykjavík.

Á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur var skiptingin sú að í 1. – 4. bekk voru 10 af 28 skólum undir viðmiðunarstundaskrá skólaárið 2015-2016, eða 36% skóla, í 5. – 7. bekk voru 19 af 26 skólum undir viðmiði eða 73% skóla, og í 8. – 10. bekk voru 13 af 22 skólum undir lágmarksviðmiði eða 54% skóla.

Á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðis var skiptingin sú að í 1. – 4. bekk voru 46 af 87 skólum undir viðmiðunarstundaskrá skólaárið 2015-2016, eða 53% skóla, í 5. – 7. bekk voru 63 af 86 skólum undir lágmarksviðmiði eða 73% skóla og í 8. – 10. bekk voru 58 af 84 skólum undir lágmarksviðmiði eða 69% skóla.

Myndin að neðan sýnir að hlutfall skóla sem ná ekki lágmarksviðmiðum er hæst í Reykjavík í 5.-7. og 8.-10. bekk. Áberandi er hversu margir skólar í Reykjavík gefa ekki upp neinar kennslumínútur í list- og verkgreinum í efstu bekkjum grunnskóla.

 

Hlutfall skóla undir viðmiðunarstundaskrá fyrir list- og verkgreinar eftir búsetu 2015-2016

 

Til fá mynd af dreifingunni þá var ákveðið að umreikna kennslumínútur í kennslustundir sem er að jafnaði 40 mínútur. Myndin hér að neðan sýnir frávik frá lágmarksviðmiði aðalnámskrár reiknað í kennslustundum. Núllpunkturinn þýðir að skóli er við viðmiðið en mínusmegin á kvarðanum vantar kennslustundir upp á. Myndin nær yfir þrjú skólaár, 2013-2014, 2014-2015 og 2015-2016, þannig að skólar eru þrítaldir, en myndin gefur samt sem áður skýrt til kynna hvernig frávikið dreifist á þessum þremur skólaárum.

Í 1. – 4. bekk er gert ráð fyrir 22,5 kennslustundum á viku í list- og verkgreinum sem dreifast á fjögur ár, sem eru um 5,5 kennslustundir á viku á hverju ári. Í 5. – 7. bekk eiga kennslustundir að vera 21 sem eru u7 kennslustundir á viku og í 8. – 10. bekk eiga kennslustundir að vera 8,5 sem eru tæplega þrjár kennslustundir á viku. Meðaltalsfrávik skóla frá viðmiði fyrir 1. – 4. bekk er 1,2 kennslustund, í 5. – 7. bekk 4 kennslustundir og í 8. – 10. bekk eru 2,6 kennslustundir undir viðmiði.

 

Frávik frá lágmarksviðmiði um fjölda kennslustunda eftir árgöngum

Frávik frá lágmarksviðmiði um fjölda kennslustunda eftir árgöngum


Myndin sýnir skýrt að í 5.-7. bekk og 8.-10. bekk er stór hluti skóla sem ekki nær lágmarksviðmiðum aðalnámskrár. Athygli vekur hve margir skólar gefa ekki upp neinar kennslumínútur í list- og verkgreinum í 8.-10. bekk. Skólaárið 2013-2014 gáfu 34 skólar ekki upp neinar kennslumínútur í list- og verkgreinum, skólaárið 2014-2015 voru þeir 38 og skólaárið 2015-2016 gáfu 39 skólar ekki upp kennslu í list- og verkgreinum. Svo virðist sem að margir skólar á unglingastigi hafi fært list- og verkgreinakennslu undir valgreinar og séu hættir að gefa upp tilteknar kennslustundir sem skyldunám á því námssviði. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 skulu nemendur í 8.-10. bekk fá 340 kennslumínútur í list- og verkgreinum og að auki 870 kennslumínútur í valgreinum.

Þar sem verulegur misbrestur er á því hvernig skólar ráðstafa kennslumínútum til list- og verkgreina mun mennta- og menningarmálaráðuneytið upplýsa sveitarfélög um þessa niðurstöðu sem er ekki ásættanleg og ítreka mikilvægi þess að réttur nemenda til lágmarkskennslustundafjölda í list- og verkgreinum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sé virtur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira