Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heimsókn svæðisstjóra Flóttamannastofnunar SÞ

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Pia Prytz Phiri og Þorsteinn Víglundsson - mynd

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, átti í vikunni fund með Piu Prytz Phiri, svæðisstjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna ásamt Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, nýskipuðum formanni flóttamannanefndar.

Á fundinum undirstrikaði Pia Prytz Phiri mikilvægi þess að viðhalda móttöku kvótaflóttafólks sem er oft eina örugga leið einstaklinga til þess að komast í skjól vegna ofsókn í heimalandi sínu. Hún sagði því fagnaðarefni að ríkisstjórn Íslands legði áherslu á að efla móttöku flóttafólks á næstu árum.

Pia sagði m.a. frá því að meðal sérstakra áherslumála Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um þessar mundir væri aðlögun flóttafólks, enda mikilvægt er að flóttafólk verði sem fyrst virkir þátttakendur í samfélaginu. Eins legði stofnunin áherslu á að ríki deildu sín á milli upplýsingum um verkefni varðandi móttöku flóttafólks sem vel hefðu tekist og jafnframt að flóttafólkið sjálft fengi aukna aðkomu að stefnumótun er varðaði það sjálft.

Ráðherra ræddi um áherslu stjórnvalda um að efla móttöku flóttafólks

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, greindi frá því á fundinum að flóttamannaefnd hafi verið falið að útfæra tillögur um móttöku kvótaflóttafólks til næstu ára í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki um að taka á móti fleiri flóttamönnum en hingað til. Eins áformuðu stjórnvöld að vinna að gerð langtímaáætlunar um móttöku flóttafólks í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þorsteinn sagði frá þeim skrefum sem stigin hafa verið til þess að jafna stöðu flóttafólks óháð því hvernig það kemur til landsins og frekari áformum í þá veru. Hann ræddi um þá fjölgun sem orðið hefur að undanförnu í hópi flóttafólks sem kemur hingað á eigin vegum og sagði þess að vænta að sú þróun haldi áfram. Huga þurfi sérstaklega að því að flóttafólk fái tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og mikilvægt sé að huga að aðgengi flóttafólks að vinnumarkaðinum og möguleika til að sinna störfum í samræmi við menntun sína.

Á fundinum var rætt um þá miklu neyð sem er viðvarandi meðal sýrlensks flóttafólks. Fram kom að einungis um helmingi þeirra 500.000 Sýrlendinga sem taldir eru í brýnni þörf fyrir að flytjast til öryggis ríkis hefur verið boðin alþjóðleg vernd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum