Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. apríl 2017 Innviðaráðuneytið

Ábending varðandi sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, beinir því til sveitarfélaga að taka tillit til leiðbeinandi reglna velferðarráðuneytisins um sérstakan húsnæðisstuðning um að meta skuli þörf fyrir slíkan stuðning á grundvelli framfærslubyrði og félagslegra aðstæðna í stað þess að byggja einungis á hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum.

Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný lög um húsnæðisbætur sem leystu af hólmi eldri lög um húsaleigubætur. Nýju lögin fjalla líkt og þau fyrri um húsnæðisstuðning hins opinbera við leigjendur. Annars vegar er kveðið á um almennan rétt leigjenda til húsnæðisbóta sem ríkið greiðir og hins vegar er bætt við ákvæði í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga um sérstakan húsnæðisstuðning sem ætlað er að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem annars eru ekki eru færir um að sjá sér fyrir húsnæði, vegna lágra tekna, þungrar framfærslubyrði og félagslegra aðstæðna.

Með nýjum lögum um húsnæðisbætur var m.a. gerð sú breyting að skilgreina greiðslur almannatrygginga til tekna, líkt og aðrar greiðslur úr opinberum kerfum ætlaðar til framfærslu, svo sem atvinnuleysisbætur og fjárhagsðstoð sveitarfélaga. Var þetta gert til að gæta samræmis og jafnræðis milli leigjenda þannig að allar skattskyldar tekjur teldust til tekna í húsnæðisbótakerfinu, óháð uppruna þeirra, og reiknuðust á sama hátt til skerðingar bóta. Samhliða þessari breytingu var ákveðið að leigjendur sem byggju einir og hefðu engar tekjur aðrar en lífeyri almannatrygginga skyldu eiga rétt á óskertum almennum húsnæðisbótum. Á þessu varð misbrestur við gildistöku laganna sem nú hefur verið leiðréttur með afturvirkri hækkun þeirra viðmiða um tekjur sem leigjendur geta haft áður en þær skerða rétt þeirra til húsnæðisbóta.

Sérstakur húsnæðisstuðningur sveitarfélaga taki mið af aðstæðum leigjenda

Við gildistöku laga um húsnæðisbætur gaf velferðarráðuneytið út leiðbeinandi reglur um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings af hálfu sveitarfélaganna í samráði við þau og þar er sérstök áhersla lögð á að taka verði mið af aðstæðum leigjenda. Samkvæmt lögunum ber sveitarfélögum að veita þeim sem á þurfa að halda sérstakan húsnæðisstuðning en þau setja sér sjálf reglur um framkvæmdina með hliðsjón af leiðbeinandi reglum ráðuneytisins.

Nú hefur komið í ljós að framkvæmd sumra sveitarfélaga við ákvörðun sérstaks húsnæðisstuðnings er með þeim hætti að sérstakar húsnæðisbætur lífeyrisþega almannatrygginga eru lægri en áður og lækka jafnvel umtalsvert samanborið við þann stuðning sem sveitarfélagið veitti þeim áður með sérstökum húsaleigubótum.

Velferðarráðuneytið bendir á að samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þarf ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðing að byggjast á heildarmati á aðstæðum umsækjanda, en ekki einungis á hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum. Meta þarf hvort um sé að ræða sérstaklega þunga framfærslubyrði eða aðrar félagslegar aðstæður sem leitt geta til þess að þörf fyrir stuðning sé meiri eða minni en hlutlæg viðmið gefa til kynna. Ef þessir þættir eru ekki metnir verður vandséð að sveitarfélag hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni við töku ákvörðunar um sérstakan húsnæðisstuðning. Félags- og jafnréttismálaráðherra beinir því þess vegna til sveitarfélaganna að tekið verði  til leiðbeinandi reglna velferðarráðuneytisins hvað þetta varðar til þess að þessum markmiðum um heildarmat verði náð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira