Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. júní 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra ávarpar hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpar hafráðstefnu SÞ. - mynd

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í gær hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem nú stendur yfir í New York í Bandaríkjunum. Á hafráðstefnunni eru saman komnir leiðtogar heims í umhverfisvernd og málefnum hafsins til að ræða leiðir til að hrinda í framkvæmd heimsmarkmiði SÞ nr. 14, sem lýtur að því að vernda hafið og nýta auðlindir þess á sjálfbæran hátt.

Ávarp sitt flutti ráðherra í tengslum við umræður um súrnun sjávar sem ógnar verulega lífríki, vistkerfum og auðlindum hafsins. Áætlað er sjórinn taki í sig einn fjórða þess koldíoxíðs sem losað er í andrúmsloftið. Þannig hefur losun gróðurhúsalofttegunda bein áhrif á efnasambönd í hafi og auka verulega á súrnun. Þetta kemur til viðbótar við aðrar ógnir sem steðja að hafinu vegna mengunar og loftslagsbreytinga, s.s. með auknum sjávarhita, hopun hafíss og hækkun yfirborðs sjávar.

Í tengslum við ráðstefnuna hafa þjóðir heims tilkynnt um hvernig þær hyggist stuðla að þessu markmiði, Ísland þar á meðal. Í yfirlýsingu Íslands kemur fram að stjórnvöld muni draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í takt við skuldbindingar þess samkvæmt Parísarsáttmálanum. Aðgerðir Íslands muni m.a. lúta að því að draga úr losun frá samgöngum og sjávarútvegi, nýta hagræna hvata s.s. græna skatta, draga úr urðun úrgangs, auka bindingu kolefnis í gróðri og bergi og efla endurheimt vistkerfa.

Þá er Ísland meðal þjóða sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að stefna að því að banna örplast í snyrtivörum, en örplast er meðal mengunarefna sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins.

Í ávarpi sínu gerði ráðherra að umtalsefni hversu háðir Íslendingar eru hafinu, þar sem fiskveiðar eru grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar og því væri full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála. Íslendingar stefndu að því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum með fjölþættum aðgerðum sem muni stuðla að minni súrnun sjávar í framtíðinni af völdum koldíoxíðs.

Í dag verður ráðherra viðstödd sýningu í tilefni af átaki Umhverfisstofnunar SÞ gegn úrgangi í hafi, sem fengið hefur yfirskriftina #CleanSeas og ætlað er að hvetja stjórnvöld, fyrirtæki og almenning til aðgerða sem stuðla að hreinni höfum.

Auk Bjartar sækir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ráðstefnuna.

Ávarp ráðherra, á ensku (pdf-skjal)

Viljayfirlýsing Íslands

Vefur hafráðstefnu SÞ

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum