Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. júlí 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að breytingum á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir

Til umsagnar eru nú drög að breytingum á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir. Í frumvarpinu, sem er til komið vegna ítrekaðra tilrauna til innbrota um borð í skip og loftför og ábendinga Samgöngustofu og hagsmunaaðila, er lagt til að kveðið verði skýrt á um að óheimilt sé að fara inn á haftasvæði flugvalla og hafna og um borð í loftfar eða skip nema með tilskildum heimildum, en að öðrum kosti viðlagðri refsingu.

Þá er lögð til breyting á lögum um siglingavernd vegna vandkvæða tollstjóra við að fylgja eftir reglum um farmvernd, en talin er þörf á styrkari stoð í lögunum fyrir refsiákvæði. Þá eru lagðar til breytingar á heimildum lögreglu til að gera bakgrunnsathuganir á grundvelli laga um loftferðir og laga um siglingavernd með það að markmiði að auka skýrleika í framkvæmd. Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingum á heimildum Samgöngustofu til að leggja á stjórnvaldssektir og dagsektir.

Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 4. ágúst næstkomandi og skulu þær berast á netfangið [email protected]. Drögin eru meðfylgjandi neðst í frétt en hér á eftir er gerð grein fyrir helstu breytingum.

Meginefni frumvarpsins

  • Kveðið er skýrt á um að einstaklingum sé óheimilt að fara inn á haftasvæði flugverndar og viðkvæm hafnarsvæði sem hafa verið afmörkuð og merkt sem bannsvæði eða aflokuð svæði. Einnig að einstaklingum sé óheimilt að fara um borð í skip eða loftfar án sérstakrar heimildar. Gengið er út frá því að innbrot á hafnarsvæði eða flugvallarsvæði sé ólögmætt, óháð því hver tilgangurinn með brotinu er. Út frá sjónarmiðum flugverndar og siglingaverndar er það alvarleg ógnun við öryggi þegar óviðkomandi aðilar komast inn á haftasvæði flugverndar og viðkvæm hafnarsvæði. Því er brýnt að tekið sé á brotum með skýrum hætti.
  • Lagt er til að refsingar vegna innbrota sem að framan er lýst verði samræmd í lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir þannig að sama refsing gildi fyrir sams konar brot. Þó er tekið tillit til þess að réttlætanlegt sé að krefjast þyngri refsinga fyrir innbrot á haftasvæði flugverndar þar sem um alvarlegra hættubrot er að ræða og lýtur mjög ströngum alþjóðlegum kröfum um öryggi og umferðarstýringu.
  • Í núgildandi lögum um siglingavernd er ekki nægjanlega kveðið á um réttindi og skyldur eftirlitsskyldra aðila gagnvart Samgöngustofu. Í frumvarpinu eru ákvæði sem lúta að því að lögfesta með formlegum hætti þá framkvæmd sem verið hefur milli þessara aðila til þessa, ekki síst til að tryggja að um meðferð mála fari samkvæmt stjórnsýslulögum. Þá fær Samgöngustofu jafnframt heimildir til að grípa til vægari úrræða en áður, þ.e. stjórnvaldssekta og dagsekta í stað refsimeðferðar, skv. 15. gr. laga um siglingavernd, til að knýja á um efndir eftirlitsskyldra aðila samkvæmt lögunum. Talið er að slík úrræði geti verið markvissari og vænlegri til árangurs vegna eftirlitshlutverks Samgöngustofu en heimildir samkvæmt gildandi lögum.
  • Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum um bakgrunnsathuganir á einstaklingum sem hyggjast taka að sér trúnaðarstörf í þágu flug- eða siglingaverndar. Lagðar eru til breytingar á ákvæði loftferðalaga um slíkar athuganir en þær teljast nauðsynlegar til að undirbyggja heimildir lögreglu til að framkvæma fullnægjandi athuganir á grundvelli alþjóðlegra krafna um flugvernd. Þá er lagt til að ákvæði laga um siglingavernd varðandi bakgrunnsathuganir verði fært til samræmis við ákvæði laga um loftferðir.
  • Loks er í frumvarpinu kveðið á um hækkun á lágmarksviðmiðum dagsekta vegna brota á lögum um loftferðir. Slíkar sektir eru samkvæmt gildandi lögum 10.000 kr. og þykja þær full lágar í þeim tilvikum sem hér um ræðir. Mikilvægt er að hafa viðmiðunarfjárhæð hærri en samkvæmt gildandi lögum svo að ákvæðið þjóni þeim tilgangi að hafa varnaðaráhrif.

Drög að breytingum á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira