Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. ágúst 2017 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingum á lögum um mannvirki til umsagnar

Sjáland í Garðabæ og Keilir - myndHugi Ólafsson

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi um breytingu á lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Breytingarnar byggja á tillögum starfshóps sem var skipaður í tengslum við gerð kjarasamninga í maí 2015 með það að markmiði að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • Felld er niður krafa um að allir séruppdrættir liggi fyrir við útgáfu byggingarleyfis. Þeir skulu þó liggja fyrir áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst.
  • Aðeins verði gerð krafa um að ábyrgðaryfirlýsing húsasmíðameistara, pípulagningameistara, rafvirkjameistara og múrarameistara liggi fyrir við útgáfu byggingarleyfis, en yfirlýsing annarra aðila, þ.e. ef þeir koma að viðkomandi verki, skal þó afhent áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst.
  • Leyfisveitanda verði heimilt við eftirlitsstörf að beita úrtaksskoðunum í stað alskoðana.
  • Skerpt er á ákvæðum um eftirlit Mannvirkjastofnunar með hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum.
  • Aukin áhersla er lögð á innra eftirlit hönnuða og skráningu niðurstaðna innra eftirlits í gæðastjórnunarkerfi.
  • Mælt er fyrir um að byggingarstjóri annist áfangaúttektir í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og skoðunarlista.
  • Krafa um faggildingu til þess að annast áfangaúttektir fellur niður. Þá er gefinn aukinn frestur fyrir Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa til að afla sér faggildingar til að annast öryggis- og lokaúttektir og yfirferð aðaluppdrátta.

Umsögnum um breytinguna skal skilað fyrir 29. ágúst nk. á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 160/2010 um mannvirki, með síðari breytingum (pdf-skjal).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira