Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. september 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mikilvægt að finna fleiri leiðir til fjármögnunar samgönguframkvæmda

Jón Gunnarsson flytur ávarp á samgönguþingi. - mynd

Samgönguþing stendur nú yfir á Hótel Örk í Hveragerði en á fyrsta hluta þess er farið yfir stöðu við vinnslu samgönguáætlana. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp í upphafi og síðan var umfjöllun um samgönguáætlun.

Að því loknu verða flutt nokkur erindi, m.a. um framtíðarsýn í samgöngum, um hvítbók um ákvarðanatöku, um flug sem almenningssamgöngur og um framkvæmdir á stofnvegum út frá höfuðborgarsvæðinu.

Í ávarpi sínu ræddi ráðherra í upphafi um undirbúning samgönguáætlana sem nú stæði, bæði fjögurra og tólf ára, og sagði meðal annars tekið mið af fjármálaætlun fyrir næstu þrjú árin. Hann sagði ekki nægilegt fé fást til nýframkvæmda og því skipti miklu máli að afla fjár til framkvæmda með öðrum leiðum en beint úr ríkissjóði. Hann kvaðst hafa á ferðum sínum um landið í sumar séð hversu brýnt væri að ljúka þeim framkvæmdum á Vestfjörðum sem fyrirhugaðar eru, m.a. um Gufudalssveit, og víða um land væru brýnar framkvæmdir á döfinni sem hrinda yrði í framkvæmd og nefndi t.d. veg um Öxi, Dettifossveg auk framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Þá sagði hann að aukið yrði fjárframlag til viðhalds vega svo og til framkvæmda á flugvöllum og við hafnir og sjóvarnir. Einnig sagði hann nýja Vestmannaeyjaferju í sjónmáli og nefndi í því sambandi að framundan væru viðræður við Vestmannaeyjabæ um að sveitarfélagið tæki að sér rekstur ferjunnar. Þá nefndi hann að til að tryggja samgönguöryggi milli lands og Eyja væri ráðgert að Herjólfur yrði áfram tiltækur sem varaskip.

Þá nefndi Jón Gunnarsson öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar og skýrslu þess efnis sem kynnt hefði verið nýlega. Hann sagði þar hafa komið fram að flugvöllur í Hvassahrauni gæti tekið við flestum þeim hlutverkum sem Reykjavíkurflugvöllur gegnir í dag en áður en hægt væri að taka ákvörðun um flugvöll þar yrðu að fara fram margra ára rannsóknir og undirbúningur. Því væri ljóst að Reykjavíkurflugvöllur yrði að fá að vera á sínum stað í allmörg ár enn.

Ráðherra sagði jarðgangatengingu við Seyðisfjörð til skoðunar og að hann væri að skipa starfshóp til að athuga hvaða leið skyldi fara í þeim efnum og horfa yrði til framkvæmda sem fyrst eftir að vinnu við Dýrafjarðargöng lýkur.

Ráðherra kynnti einnig samgönguþing unga fólksins sem framundan er. Boðið yrði fulltrúum framhaldsskóla til að ræða um ökunám, sektir, notkun farsíma undir stýri, slys og fleira. Hann sagði mikilvægt að fá sjónarmið unga fólksins um þessi efni.

Í lokin sagði ráðherra að háar fjárhæðir færu til samgöngumála og væri mikilvægt að taka upp nýjungar, tileinka sér nýja hugsun á öllum sviðum samgangna. Hann sagði ekki unnt að ná fram nægulegu fé til málaflokksins með einungis framlögum frá ríkissjóði, skoða yrði aðra leiðir.

  • Á annað hundrað manns sitja samgönguþing.
  • Samgönguþing stendur nú yfir á Hótel Örk í Hveragerði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira