Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. október 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að meginþáttum eigandastefnu ríkisins fyrir jarðir, land, lóðir og auðlindir birt til umsagnar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið drög að meginþáttum eigandastefnu ríkisins fyrir jarðir, land, lóðir og auðlindir. Drögin taka m.a. mið af nýlegri úttekt Hagfræðistofnunar á ábúðarjörðum í ríkiseigu þar sem lagt var mat á kosti og galla þess að setja ríkisjarðir í ábúð í tengslum við endurmat á stefnu ríkisins á sviði jarðarmála.

Í samræmi við lög um opinber fjármál fer ráðuneytið með fyrirsvar flestra eigna í eigu ríkissjóðs, þ.m.t. eignarhlut ríkisins í fasteignum, jörðum, auðlindum og öðrum fasteignatengdum réttindum.

Meginmarkmið í eignaumsýslu ríkisins undanfarin ár hefur verið að stuðla að skýrri, skilvirkri og hagkvæmri meðferð á ríkiseignum hvort sem um er að ræða fasteignir, jarðir eða auðlindir í eigu ríkisins, ásamt því að bæta yfirsýn og fjárhagslegt gagnsæi við meðferð allra eigna.

Eins og fram kemur í fjármálaáætlun 2018-2022 ár hefur markvisst verið unnið að því að meðferð eignarhalds verði samræmd, fagleg og hagkvæm, m.a. með stofnun Ríkiseigna sem meginábyrgðaraðila eigna sem eru á forræði ráðuneytisins.

Til að markmiðum um faglega umsýslu jarða, lands og auðlinda í eigu ríkisins verði náð er mikilvægt að mótuð sé eigandastefna þar sem meginmarkmið ríkisins með eignarhaldinu eru útfærð nánar.

Á þessum grunni eru settir fram meginþættir eigandastefnu ríkisins vegna jarða, landa, lóða og auðlinda. Í framhaldinu verða settir fram sambærilegir meginþættir fyrir fasteignir og réttindi tengd fasteignum.

Þegar formleg samþykkt eigandastefnu liggur fyrir verða lög, reglugerðir, reglur og leiðbeiningar sem varða jarðir, lönd, lóðir og auðlindir ríkisins í kjölfarið endurskoðuð til samræmis við stefnuna.

Óskað er eftir umsögnum um meginþætti eigandastefnunnar á þessu stigi.

Umsagnarfrestur er til og með 27. október 2017. Umsagnir óskast sendar á [email protected]

Drög að meginþáttu eigandastefnu ríkisins fyrir jarðir, land, lóðir og auðlindir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum