Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. október 2017 Forsætisráðuneytið

Katrín Björg Ríkarðsdóttir skipuð framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu

Þorsteinn Viglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til næstu fimm ára. Ákvörðun um skipun hennar er í samræmi við mat ráðgefandi nefndar sem mat hæfni umsækjenda.

Embættið var auglýst laust til umsóknar í júní sl. og rann umsóknarfrestur út 17. júlí. Umsækjendur voru tíu en einn þeirra dró umsókn sína til baka. Ráðgefandi nefnd sem mat hæfni umsækjenda skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra 8. september síðastliðinn og mat Katrínu Björgu vel hæfa til starfsins. Ákvörðun ráðherra um skipun Katrínar Bjargar var tekin að undangengnum viðtölum við þá umsækendur sem nefndin mat hæfasta.

Katrín Björg lauk M.Ed gráðu í menntunarfræðum með áherslu á kynjajafnrétti frá Háskólanum á Akureyri árið 2011. Áður hafði hún lokið menntun í uppeldis- og kennslufræðum frá sama skóla árið 1996 og BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1992.

Katrín hefur frá árinu 2014 verið aðstoðarmaður bæjarstjóra á Akureyri. Árin 2006 – 2014 var hún framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrar, 2003 – 2006 var hún jafnréttisráðgjafi Jafnréttis- og fjölskyldunefndar Akureyrar og árin 2000 – 2003 starfaði hún sem sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu. Áður starfaði hún við Minjasafnið á Akureyri og við Héraðsskjalasafn bæjarins.

Í umsögn hæfnisnefndar um Katrínu Björgu segir að hún sé reyndur stjórnandi með ótvíræða leiðtogahæfileika, jákvæð, skipulögð og þægileg í samskiptum. Hún Hafi verið mikið viðloðandi jafnréttismál á starfsferli sínum og meðal annars tekið þátt í mótun starfsemi Jafnréttisstofu frá stofnun hennar.

Jafnréttisstofa starfar á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og annast stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Jafnréttisstofa skal m.a. annast fræðslu og upplýsingagjöf um jafnréttismál, veita ráðgjöf á því sviði, gera tillögur um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna og fylgjast með þróun á málefnasviðinu. Stofnunin skal vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega. Hún skjal einnig vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði. Nánar er fjallað um verkefni og hlutverk Jafnréttisstofu í 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum